Fréttir


Hlaup er hafið í Skeiðará

6.12.2007

Rennsli og rafleiðni hefur vaxið í Skeiðará undanfarna daga og segja sérfræðingar Vatnamælinga Orkustofnunar nú öruggt að Skeiðarárhlaup er hafið. Vatnstaðan í Grímsvötnum var frekar lág við upphaf hlaupsins svo að öllum líkindum verður hlaupið lítið. Síðast hljóp úr Grímsvötnum í nóvember 2004. Því hlaupi fylgdi eldgos í Grímsvötnum.

Rennsli árinnar í dag var talið álíka mikið og gott sumarrennsli og brennisteinslykt fannst á Skeiðarársandi. Hlaup í Skeiðará fara af stað þegar vatn úr Grímsvötnum stendur nægilega hátt til að ná að brjóta sér leið undir Skeiðarárjökul.

Fylgjast má með vatnshæð og rafleiðni í ánni í vöktunarkerfi Vatnamælinga.

Vöktunarkerfi Vatnamælinga er símatengt mælikerfi þar sem sjálfvirkar mælistöðvar eru í farsímasambandi við tölvukerfi. Þegar mælistærðir fara umfram skilgreind mörk senda stöðvarnar viðvaranir um kerfi Neyðarlínunnar, sem sér um að kalla út sérfræðinga til að meta hvort um hlaup sé að ræða.Tölvukerfið sækir gögn í stöðvarnar, framkvæmir fyrstu meðhöndlun gagna og birtir þau á vefnum.