Fréttir


Sérleyfi til leitar á olíu í útboð

18.12.2007

Ríkisstjórn Íslands samþykkti 18. desember 2007 tillögu iðnaðarráðherra um að stefnt verði að útboði sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu, norðaustur af Íslandi. Fram kemur í fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að miðað sé við að hægt verði að bjóða leyfin út 15. janúar 2009. Engin trygging er þó fyrir því að gas eða olía finnst á svæðinu.

Yfirlýsing ráðuneytisins fer í heild sinni hér á eftir


Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun, 18. desember 2007, tillögu iðnaðarráðherra um að stefnt verði að útboði sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu, norðaustur af Íslandi. Miðað er við að hægt verði að bjóða leyfin út 15. janúar 2009. Engin trygging er fyrir því að gas eða olía finnst á svæðinu.

Niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga á svæðinu þykja gefa vísbendingar um að þar geti verið að finna bæði olíu og gas í vinnanlegu magni. Jarðfræðilega er svæðið hluti af samfelldu setlagasvæði sem upphaflega tengdi saman meginlandsskildi Noregs og Grænlands og þar má finna þykk setlög. Víða hefur fundist olía og gas á nálægum og jarðfræðilega skyldum svæðum.

Forsenda þess að nú er hægt að leita þessara auðlinda á Drekasvæðinu er sú mikla þróun sem orðið hefur í bor- og vinnslutækni á undanförnum árum, ásamt nýlegri reynslu af olíu- og gasvinnslu á miklu hafdýpi á norðlægum slóðum. Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir, þarf hins vegar til að sannreyna hvort olíu og gas sé í reynd að finna á Drekasvæðinu.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar byggist á niðurstöðum ítarlegrar undirbúningsskýrslu sem unnin hefur verið um málið. Í skýrslunni, sem iðnaðarráðuneytið gaf út í mars 2007, var sett fram tillaga að áætlun um olíuleit á Drekasvæðinu þar sem m.a. er skoðuð hugsanleg umhverfisáhrif þeirrar áætlunar, í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.

Skýrslan var kynnt á fimm opnum fundum og send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar, auk þess sem almenningi gafst kostur á því að senda inn athugasemdir. Alls bárust 16 umsagnir og voru þær almennt jákvæðar. Í framhaldi var ákveðið að ráðast í frekari rannsóknir á lífríki sjávar, veðurfari og sjólagi á Drekasvæðinu. Nauðsynlegum rannsóknum verður lokið áður en til rannsóknar- og vinnsluborana kemur.

Ríkisstjórnin stefnir að því að stuðla að skynsamlegri nýtingu hugsanlegra olíu- og gasauðlinda á Drekasvæðinu í sem mestri sátt við umhverfið og samfélagið, þjóðinni til hagsbóta. Engin trygging er fyrir því að olía og gas finnist í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu en ljóst er að verulegur olíu- og gasfundur gæti haft kröftug efnahagsleg áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Með því væri fleiri stoðum skotið undir efnahag og sjálfstæði þjóðarinnar, auk þess sem olíuvinnsla myndi efla byggð á svæðum sem næst liggja Drekasvæðinu.

Gerðar verða ítrustu kröfur um öryggi og vinnuvernd, sem og umhverfisvernd og mengunarvarnir. Á næstu mánuðum verður unnið að því að endurskoða viðeigandi löggjöf og útfæra leyfisskilmála og skattalegt umhverfi vegna þessarar starfsemi.

Frekari upplýsingar um olíuleit á Drekasvæðinu má nálgast hér á vef Orkustofnunar

Hér má nálgast ítarefni frá ráðuneytinu