Fréttir


Jarðvarmasamstarf við Níkaragva

28.1.2008

Orkumálaráðherra Níkaragva, Emilio Rapaccioli, er staddur hér á landi til að kynna sér stöðu jarðvarmamála á Íslandi og heimsækja stofnanir og fyrirtæki sem að þeim málum koma.

frett_28012008Með ráðherranum í för eru Magdalena Perez, yfirmaður jarðhitamála í ráðuneytinu, og Javier Chamorro yfirmaður Fjárfestingastofu Níkaragva.

Rapaccioli átti í morgun fund í Orkugarði þar sem hann kynnti stöðu orkumála í Níkaragva og sat fyrir svörum. Síðdegis kynnir ráðherrann sér starfsemi Orkustofnunar, Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og starfsemi Íslenskra Orkurannsókna en sérfræðingar ÍSOR munu að mestu leyti annast jarðvarmaverkefnið fyrir hönd Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ráðherrann hittir starfsbróður sinn, Össur Skarphéðinsson, á fundi á miðvikudag áður en hann heldur af landi brott.

Ráðherrann er staddur hér á landi í boði Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sjá nánar á vef ÞSSÍ: http://www.iceida.is/islenska.