Fréttir


Nýr starfsmaður á sviði olíuleitar

1.2.2008

Dr. Þórarinn Sveinn Arnarson hefur verið ráðinn til að sinna umsýslu Orkustofnunar á sviði olíuleitar. Á síðasta ári voru Orkustofnun falin aukin verkefni í umsýslu fyrir hönd ríkisins á sviði leitar, rannsókna og vinnslu á kolvetni.

Í dag, 1. febrúar hefur störf á Orkustofnun dr. Þórarinn Sveinn Arnarson, sem hefur verið ráðinn til að sinna umsýslu Orkustofnunar á sviði olíuleitar.

Á síðasta ári voru Orkustofnun falin aukin verkefni í umsýslu fyrir hönd ríkisins á sviði leitar, rannsókna og vinnslu á kolvetni. Þeim var fyrst um sinn sinnt af óbreyttum fjölda starfsfólks á stofnuninni og með því að leggja önnur verkefni til hliðar tímabundið. En nú er komið að því að fyrsti starfsmaðurinn sé sérstaklega ráðinn til að sinna verkefnum á sviði olíuleitar. Þórarinn mun m.a. vinna að tryggri varðveislu, skoðun og túlkun trúnaðargagna sem skilað er til Orkustofnunar vegna leitar og rannsókna á kolvetni og stýra eftir atvikum aðkeyptum verkefnum á því sviði, auk þess að aðstoða við þann almenna undirbúning leyfisveitinga sem nú stendur yfir.

Þórarinn er efnafræðingur og haffræðingur að mennt og hefur stundað rannsóknir á sviði lífrænnar jarðefnafræði, auk þess að hafa reynslu af vinnslu og greiningu umfangsmikilla gagna.