Fréttir


Elsa G. Vilmundardóttir jarðfræðingur er látin

30.4.2008

Elsa G. Vilmundardóttir jarðfræðingur, og fyrrum starfsmaður Rannsóknasviðs Orkustofnunar, lést að kvöldi síðasta vetrardags 23. apríl sl. 75 ára að aldri.
Elsa stundaði nám við Stokkhólmsháskóla árin 1958-1963 og var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólanámi í jarðfræði. Á námsárum sínum vann hún á sumrin við ýmis jarðfræðistörf á vegum Raforkumálaskrifstofunnar. Á þeim árum vann hún mest að jarðfræðirannsóknum við fyrirhugaða Búrfellsvirkjun og kynntist þá töfrum Tungnaáröræfa. Hún heillaðist af landinu, af móberginu, af stóru gjóskugígunum, en ekki síst af hinum dílóttu hraunum sem hvarvetna urðu á vegi hennar og hún valdi sér sem verkefni til lokaprófs.

Þegar hún kom heim frá námi árið 1963 hóf hún fljótlega aftur störf hjá Raforkumálaskrifstofunni, síðan hjá Raforkudeild Orkustofnunar, þegar hún varð til árið 1967, síðar Vatnsorkudeild og að lokum Rannsóknasviði Orkustofnunar sem varð að Íslenskum orkurannsóknum árið 2003. Þá var Elsa hins vegar komin á eftirlaun en vann sem verktaki hjá ÍSOR.

Árin 1963–1978 var Elsa lausráðin og ekki í fullri vinnu vegna barneigna og annarra heimilisástæðna en vann mest við ýmsar rannsóknir á virkjanasvæðum á suðurhálendinu og í Fljótsdal. Árið 1977 skilaði hún skýrslu um Tungnaárhraunin sem var mikið tímamótaverk og enn hin merkasta heimild um þau. Árið 1980 var gerður samningur milli Orkustofnunar og Landsvirkjunar um samræmda jarðfræðikortlagningu á vatnasviði Þjórsár ofan Búrfells og var Elsa umsjónarmaður þess verks. Í kjölfarið var gerður samningur um gerð berggrunns-, jarðgrunns- og vatnafarskorta af svæðinu í mælikvarða 1:50 þúsund, eða alls 21 kort. Slíkt hafði ekki verið gert áður á Íslandi og komu kortin út á árabilinu 1983-1999. Með þessu hófst aðal útivinnutímabil Elsu og þeir eru ekki margir íslensku jarðfræðingarnir sem eytt hafa jafn mörgum stundum á hálendi Íslands. Samferðamenn hennar í kortlagningunni voru fjölmargir úr röðum samstarfsmanna á Orkustofnun, en vert er að nefna sérstaklega Snorra P. Snorrason jarðfræðing sem vann með henni að kortlagningu móbergs og Guðrúnu Larsen frá Háskóla Íslands, en þær byggðum.a. saman upp öskulagatímatal fyrir suðurhálendið, sem notað hefur verið til að aldursgreina hraunin á Tungnaáröræfum.

Á þessum árum var lagður grunnur að því mikla verki sem Elsa vann enn að er hún lést, þ.e. kortlagningu móbergs í eystra gosbeltinu. Samhliða bergrunnskortlagningunni á suðurhálendinu vann hún einnig að kortlagningu móbergs í norðausturgosbeltinu og á fornu lónseti að Fjallabaki.

Á námsárunum giftist Elsa eftirlifandi eiginmanni sínum Pálma Lárussyni verkfræðingi sem vann hjá Almennu verkfræðistofunni. Pálmi var hennar stoð og stytta í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og voru þau einstaklega samrýmd hjón. Elsu nægði ekki vinnuferðirnar á hálendinu, því fríhelgarnar notuðu þau Pálmi oft saman á fjöllum, jafnvel á sömu svæðum og hún var að kortleggja það skiptið. Þau Pálmi eignuðust tvö börn, Vilmund og Guðrúnu Láru.

Elsa var einn af 13 stofnfélögum Jarðfræðafélags Íslands og var formaður þess árin 1986-1990.  Einnig var hún formaður starfsmannafélags Orkustofnunar 1983-1985.

Elsa var með hugann við ævistarfið allt fram á síðustu stund, því hún var stödd á fámennum fundi í Orkugarði að kynna móbergsverkefni sitt, full eldmóði, þegar hún veiktist skyndilega og lést fáeinum klukkustundum síðar.

Starfsmenn Orkustofnunar þakka Elsu frábærar samvinnu- og samverustundir, sumir hverjir til margra áratuga, og senda fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur. Hennar verður sárt saknað.


(skv. frétt ÍSOR)