Fréttir


Aukið samstarf við innlenda og erlenda háskóla

14.5.2008

Orkustofnun og Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hafa gert samning við Háskóla Íslands sem auka samstarf stofnananna til muna.

Háskóli Íslands, Orkustofnun og dr. Ingvar Birgir Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna  hafa undirritað samning um að Ingvar  gegni starfi gestaprófessors við verkfræði- og raunvísindadeildir HÍ. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í jarðhitafræðum og jarðhitaverkfræði við HÍ og að efla samvinnu milli HÍ og Orkustofnunar þar sem Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna er starfræktur.

Ingvar Birgir lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Oxfordháskóla 1973.  Hann starfaði við jarðfræðirannsóknir á Orkustofnun 1973-1979 en tók þá við starfi forstöðumanns  Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna sem hann hefur gengt æ síðan að undanteknum árunum 1986-1988 þegar Ingvar Birgir var aðstoðarbankastjóri hjá Norræna Fjárfestingbankanum.  Ingvar Birgir hefur birt fjölda greina um jarðfræðirannsóknir og nýtingu jarðhita í heiminum auk þess að byggja upp og efla starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna. Ingvar Birgir hefur sinnt kennslu í jarðhitafræðum við Háskóla Íslands um áratuga skeið.

frett_14052008

Meðfylgjandi mynd var tekin af ljósmyndara HÍ við undirritun samningsins.  Þá var einnig gerður samningur milli HÍ og ÍSOR um að dr. Halldór Ármannsson hjá ÍSOR gegni starfi gestaprófessors við verkfræði- og raunvísindadeildir HÍ.

Jafnframt hefur Guðna A. Jóhannessyni, orkumálastjóra verið boðin staða sem "affiliated professor", eða prófessor án vinnuskyldu, við KTH (Konunglega sænska verkfræðiháskólann í Stokkhólmi). Í bréfi rektors KTH segir að mikilvægur þáttur í alþjóðlegu vísindasamstarfi háskólans sé að skapa vísindamönnum, sem eru í fremstu röð í sinni grein, möguleika til þess að tengjast KTH án þess að gangast undir þær kröfur sem fylgja stöðu gestaprófessors. Hugmyndin með titlinum "affiliated professor“ er að styrkja tengslanet KTH með því að tengja vel metna erlenda vísindamenn háskólanum. Tengslin við KTH eiga að byggja á alþjóðlegum samskiptum og vísindalegu samstarfi til langs tíma. Guðni má titla sig "affilliated professor" KTH frá 1. maí 2008 til og með 31. júlí 2011.