Fréttir


Orkustofnun í þróunarsamvinnu vegna jarðhitaverkefnis í Nicaragua

30.5.2008

Orkustofnun hefur tekið að sér verkþátt í þróunarsamvinnuverkefni á sviði jarðhita sem ÍSOR og Þróunarsamvinnustofnun Íslands leiða í Nicaragua.

ÍSOR er aðalráðgjafi ÞSSÍ vegna jarðhitaverkefnis í Nicaragua.  Orkustofnun hefur tekið að sér að leiða vinnu þess verkþáttar sem snýr að mótun leiðbeininga og viðmiða vegna eftirlits með rannsóknum og nýtingu jarðhitaauðlinda í Nicaragua.   Í Nicaragua eru nú í gildi lög um jarhitanýtingu en nokkuð vantar uppá leiðbeiningar og viðmið fyrir eftirlitsaðila. Orkustofnun mun leggja til og leita til sérfræðinga sem koma til með að vinna með sérfræðingum í ráðuneyti orku og námumála í Nicaragua (MEM); annars vegar við athugun á þeim reglugerðum sem gilda í einstökum löndum sem nýta jarðhita og hins vegar við að móta leiðbeiningar og viðmið um eftirlitshlutverk MEM með hliðsjón af því sem vel hefur reynst í öðrum löndum.  Orkustofnun mun kalla eftir framlagi frá sérfræðingum af ÍSOR og öðrum stofnunum, innlendum sem erlendum eftur þörfum.  Jónas Ketilsson, verkefnisstjóri verksins hjá Orkustofnun og Magdalena Perez, yfirmaður jarðhitamála hjá MEM, koma til með að skipta með sér verkum og veita framkvæmd þess eftirfylgni.  Einnig hefur verið ráðinn laganemi frá Háskólanum í Reykjavík, Guðlín Steinsdóttir, og kemur hún til með að vinna að samanburði á lögum og reglugerðum um nýtingu á jarðhitaauðlindum milli þeirra landa sem nýta jarðhita að einhverju marki til rafmagnsframleiðslu (s.s. Costa Rica, El Salvador, Mexico, BNA, Ítalía, Indónesía, Filipseyjar, Nýja Sjáland og Ísland). Út frá niðurstöðum hennar vinnu verða unnar tillögur að leiðbeiningum fyrir eftirlitsaðila í Nicaragua, ásamt hugsanlegum tillögum að breytingu á gildandi reglum fyrir Nicaragua.

frett_30052008

Á vettvangi - Mynd birt með leyfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.