Fréttir


Fréttatilkynning

13.6.2008

Í ljósi fréttaflutnings af endurupptökubeiðni framkvæmdaraðila vatnsátöppunar-verksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi á matsskylduúrskurði umhverfisráðherra vill Orkustofnun koma á framfæri eftirfarandi.

Á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu þann 13. júní 2008 er frétt með fyrirsögninni „Orkustofnun dregur umsögnina til baka“. Í fréttinni segir m.a.: „Orkustofnun telur ekki lengur að fyrirhuguð vatnsátöppunarverksmiðja í Ölfusi hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Á grundvelli eldri niðurstöðu stofnunarinnar úrskurðaði umhverfisráðherra að verksmiðjan skyldi í umhverfismat.“

Í tilefni fréttaflutnings Fréttablaðsins í umræddri frétt skal það áréttað að í fyrri umsögn Orkustofnunar, dags. 4. febrúar sl., veitti Orkustofnun umsögn með sérstöku tilliti til vatnafars um kæru til umhverfisráðherra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna átöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi. Sú umsögn var m.a. byggð á gögnum sem bárust frá umhverfisráðuneytinu og jafnframt aflaði stofnunin sér frekari gagna frá Skipulagsstofnun um nýlegar breytingar á aðalskipulagi Ölfus 2002-2014. Einnig var tekið mið af fyrirliggjandi þekkingu um grunnvatnsstrauma á viðkomandi svæði og þeirri túlkun gagna sem fram kemur í skýrslum um niðurstöður grunnvatnslíkans af svæðinu, sem unnið hefur verið af Verkfræðistofunni Vatnaskilum m.a. fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.

Á grundvelli gagna sem þá lágu fyrir var það álit Orkustofnunar að starfsemi vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi kunni að hafa umtalsverð áhrif á grunnvatn á svæðinu og því bæri að meta umhverfisáhrif starfseminnar, sbr. umsögn stofnunarinnar, dags. 4. febrúar sl. Umsögn þessa sem og seinni umsögn Orkustofnunar má finna inni á heimasíðu stofnunarinnar (http://os.is/page/umsagnir2008).

Með erindi, dags. 9. juní sl., barst Orkustofnun umsagnarbeiðni umhverfisráðuneytis vegna umræddrar endurupptökubeiðni framkvæmdaraðila. Með beiðninni bárust frekari gögn frá framkvæmdaraðila, umfram þau sem lágu fyrir þegar fyrri umsögn Orkustofnunar frá 4. febrúar sl. var veitt. Í ljósi þeirra gagna sem bárust, sem og frekari gagna sem stofnuninni hafa borist vegna umsagnar um umsókn framkvæmdaraðila til iðnaðarráðuneytis um nýtingarleyfi á vatnslindum í landi Hlíðarenda í Ölfusi til vatnsvinnslu, veitti Orkustofnun nýja umsögn um umræddar framkvæmdir.

Vegna nýrra upplýsinga, auk upplýsinga um rennslismælingar, sem og upplýsinga er fram koma í gögnum er fylgdu umsókn fyrirtækisins til iðnaðarráðherra um nýtingarleyfi, en lágu ekki fyrir þegar Orkustofnun veitti fyrri umsögn sína varð stofnunin að veita nýja umsögn. Er það mat Orkustofnunar að af þessum viðbótarupplýsingum megi ráða að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa veruleg umhverfisáhrif á vatnafar svæðisins.

Það skal skýrlega tekið fram að með umsögn sinni frá 12. júní sl. er Orkustofnun á engan hátt að draga fyrri umsögn til baka líkt og getið er um í fyrirsögn fréttar í Fréttablaðinu. Þvert á móti er Orkustofnun að veita nýja umsögn á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og borist hafa frá umhverfisráðuneytinu auk þeirra upplýsinga sem stofnuninni hafa verið kynntar af iðnaðarráðherra vegna umsóknar framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi á vatnslindum í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Að lokum skal það tekið fram að Orkustofnun telur fyrri umsögn sína hafa átt sér fullkomna stoð í þeim gögnum sem lágu fyrir á þeim tíma sem hennar var óskað.