Fréttir


Fjórtán styrkir til að rannsaka og kynna innlenda orkugjafa og hagkvæma orkunotkun

2.7.2008

Iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr sjóðnum til rannsókar- og kynningarverkefna fyrir árið 2008. Styrkirnir eru veittir verkefnum sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.

Veittir eru 14 styrkir að upphæð 25,1 milljón króna. Alls bárust 26 umsóknir um samtals 147,3 m.kr. og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.
Rannsóknar- og fræðslustyrkir þessir eru veittir árlega úr Orkusjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um Orkustofnun, Orkuráð og Orkusjóð (87/2003) til „sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi“ og til „verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni“. Í auglýsingu var nú lögð áhersla á verkefni sem snertu hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis. Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn. Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.


Verkefnin 14 sem fá styrk úr Orkusjóði að þessu sinni eru:

1 Orkuhagkvæmni í fiskeldi með jektorum – 4 m.kr.
Alice á Íslandi ehf. (Skúli Guðbjarnarson) – Verkefnið beinist að því að nýta í fiskeldi fallorku vatns beint með svokölluðum jektorum í stað rafknúinnar vatnsdælu. Við þetta mundi sparast verulega raforka í fiskeldi og aðföng (vatnið) og mannvirki nýttust betur. Tæknin kann að nýtast víðar og gæti við hagfelldar aðstæður svarað til smárrar virkjunar.

2 Viðarkynding úr orkuskógum – 2,5 m.kr.
Skógráð ehf. (Loftur Jónsson) – Verkefnið, sem styrkt er öðru sinni, snýst um að setja upp kyndistöð fyrir viðarkurl við grunnskólann á Hallormsstað. Þetta er frumherjastarf við orkunýtingu úr viði á Íslandi, og yrði í fyrsta sinn sem stærri byggingar eru kyntar með eldiviði síðan á landnámsöld. Slíkar kyndistöðvar gætu skapað markað fyrir timburafurðir skógarbænda. Áætlað er að næsti áfangi verði stærri viðarkyndistöð fyrir íbúðarbyggðina á Hallormsstað.

3 Miðlæg varmadæla við fjarvarmaveitu Vestmannaeyja – 2,5 m.kr.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands (Frosti Gíslason) – Kannað verður hvort unnt er og hagkvæmt að koma upp miðlægri varmadælu fyrir fjarvarmaveitu Vestmannaeyja og nýta sjóinn sem varmagjafa. Þessari tækni er beitt í Svíþjóð og Noregi en er óreynd hér. Heppnist verkefnið getur sparast umtalsvert rafmagn sem nú er notað til veitunnar. Orkuráð hefur veitt vilyrði fyrir framhaldsstyrk til verkefnisins á næsta ári.

4 Ljósbúnaður fyrir ljós-lífviðtaka – 2,4 m.kr.
Vistvæn Orka ehf. (Ásbjörn E. Torfason) – Verkefnið felst í þróun ljósbúnaðar fyrir ljós-lífviðtaka (photobioreactor) til að framleiða verðmætar afurðir úr smáþörungum. Búnaðurinn er notaður með sólarljósi eða án og verður tölvustýrður til að hámarks framleiðsla fáist allt árið um kring. Ljós-lífviðtakakerfi með þessum ljósabúnaði getur nýtt afgangsvarma sem ekki kemur að gagni í jarðvarmavirkjunum, og ræktunin bindur að auki koltvísýring.

5 Kornþurrkun með heitu vatni – 2,25 m.kr.
Þreskir ehf. (Þórarinn Leifsson) – Markmið verkefnisins er að nota varmaskipti knúinn heitu vatni í stað olíubrennara við að þurrka korn. Aðferðin er þegar þekkt hérlendis en á Vallhólma í Skagafirði á að reyna hana í stórum stíl þannig að hægt sé með þessum hætti að þurrka korn frá stóru svæði með jarðhita og spara verulega notkun jarðefnaeldsneytis í vaxandi búgrein.

6 Eldsneytisframleiðsla úr úrgangspappír með óbeinni gösun – 2 m.kr.
Hannibal (Gestur Ólafsson) – Verkefninu er ætlað að kanna hvort hagkvæmt er að framleiða fljótandi eldsneyti með óbeinni gösun úr úrgangspappír og yrði jarðhitagufa nýtt beint í ferlinu. Aðferðin við framleiðslu svokallaðs FT-eldsneytis er vel þekkt en hér kynnu að vera aðstæður til sérstakrar hagkvæmni vegna jarðhitans. Athugunin er á frumstigi og ef vel gengur er miðað við talsverðan pappírsinnflutning auk þess að koma í lóg úrgangspappír sem hér fellur til.

7 Etanólframleiðsla úr íslenskum lífmassa – 2 m.kr.
Íslenska lífmassafélagið hf. (Örn Hjaltalín) – Ljúka á athugun um að reisa hér tvær etanólverksmiðjur sem framleiddu allt að 30 milljónum lítra af etanóli, á Suðurlandi og í Þingeyjarþingi, en að auki yrðu til ýmsar aðrar afurðir. Framtíðarsýn að hérlendis yrði sett á bíla bensín með íblönduðu etanóli, um 10%, sem mundi minnka loftmengun um 7–8%. Lífmassinn sem til þarf getur skapað fjölda starfa um landið og stuðlar að aukinni gróðursetningu. Lokaþáttur verkefnis sem staðið hefur nokkra hríð.

8 Raforkuframleiðsla með jarðhitavatni við lághita – 2 m.kr.
Gunnar Á. Gunnarsson á Hýrumel (Ragnar Ásmundsson) – Nýjar aðferðir kunna að gefa færi á raforkuframleiðslu úr jarðhitavatni við lægra hitastig en áður þekkist hérlendis. Í verkefninu á Hýrumel í Reykholtsdal verður reyndur loftkælir sem hefur gefið góða raun erlendis. Jarðhitauppsprettur á hitabilinu 65–180°C eru nú sjaldan nýttar til raforkuframleiðslu en ef verkefnið heppnast vel kynnu að skapast möguleikar til stóraukinnar framleiðslu úr slíkum uppsprettum á lághitasvæðunum. Verkefnið er nú styrkt öðru sinni og vilyrði liggur fyrir um lokastyrk á næsta ári.

9 Vindrafstöð tengd raforkukerfinu – 1,5 m.kr.

Haraldur Magnússon á Belgsholti – Verkefnið felst í að setja upp vindrafstöð á Belgsholti í Melasveit með 45 kW afl og tengja hana inn á almenna raforkukerfið. Hér yrði um frumherjastarf að ræða sem hefur verulegt rannsóknargildi, skapar tækniþekkingu um tengingu vindmyllna við kerfið og getur nýst öðrum bændum og landeigendum við að setja upp vindknúnar smávirkjanir víða um land.

10 Nýting mismunandi visthæfs eldsneytis – 1,2 m.kr.
Íslensk NýOrka (Jón Björn Skúlason) – Verkefnið felst í að bera saman mismunandi eldsneytisnýtingu ýmissa tegunda visthæfs eldsneytis. Safnað verður gögnum um farartæki sem nota metan, rafmagn, vetni, tvinntækni og metanól og skoðuð eldsneytisstýring og efnisbókhald. Jafnframt verða athuguð framleiðsluferli ýmiss eldsneytis úr innlendum orkulindum með tilliti til hagkvæmni, kannað framboð tækja fyrir visthæft eldsneyti frá framleiðendum og athugað um markaðssetningu og deifingu í framtíðinni.

11 Alþjóðaráðstefna um sjálfbæran akstur (Driving Sustainability) – 1 m.kr.
Framtíðarorka ehf. (Teitur Þorkelsson) – Árleg alþjóðleg ráðstefna um orkulausnir framtíðar í samgöngum verður haldin öðru sinni í Reykjavík í september 2008. Megintema er nú rafmagnsnýting í samgöngum. Ráðstefnuhaldið tengir saman fræðimenn, framleiðendur, markaðsmenn, opinbera aðila og áhugamenn, og hefur að markmiði að gera Ísland að vettvangi umræðu og lausna á sviði vistvænna samgangna.

12 Rafvæðing einkabifreiða – 1 m.kr.
Steingrímur Ólafsson – Verkefnið felst í að taka saman á aðgengilegan hátt nýjustu upplýsingar um rafbíla, hvernig þeir henta á Íslandi og hvað þarf til að þeir nýtist við íslenskar aðstæður. Athugað verður hvaða tækni er til staðar og við hverju má búast á næstunni, hvernig þarf að hátta innri uppbyggingu orkudreifikerfis, hvaða áhrif slík umbreyting hefði á ýmsar þjóðhagsstærðir og hvað aðrar þjóðir eru að hugleiða í þessum efnum. Miðað við verklok í haust.

13 Orkugarður Sólheima – 500 þús.kr.
Sesseljuhús (Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir) – Orkugarðurinn rís á Sólheimum í Grímsnesi innandyra og utandyra og hefur miðstöð í Sesseljuhúsi þar sem sett verður upp sýning um endurnýjanlega orkugjafa. Fræðslu- og skemmtigarður um endurnýjanlega orkugjafa fyrir ferðamenn og skólahópa.

14 – Rafvél í skútu – 250 þús.kr.
Pétur Ó. Einarsson – Verkefnið „Náttúran beisluð“ felst í að setja rafmagnsvél í stað dísilvélar í 28 feta skútu. Uppsprettur orku eru þrjár, skrúfan snýst og hleður geyma þegar báturinn svífur seglum þöndum, sólarrafhlöður framleiða rafmagn fyrir ljós og vél, og í höfn eru geymar fylltir grænni orku frá íslenska raforkukerfinu. Tilraunin kynni að leiða til orkusparnaðar í skútusiglingum og gæti einnig vakið áhuga á öðrum smábátum.