Fréttir


Afmælisráðstefna Jarðhitaskólans

18.8.2008

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna fagnar þrjátíu ára afmæli sínu með ráðstefnu á Grand Hóteli Reykjavík 26. - 27. ágúst nk.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna fagnar þrjátíu ára afmæli sínu með ráðstefnu á Grand Hóteli Reykjavík 26. - 27. ágúst nk. og hefst dagskrá kl. 9:00 báða dagana. Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um jarðhita og þróunaraðstoð. 

Á ráðstefnunni verða rúmlega þrjátíu núverandi nemendur skólans og rúmlega þrjátíu nemendur skólans frá fyrri árum frá Afríku, Asíu, Austur-Evrópu og Mið-Ameríku. Nemendur fyrri ára munu flestir flytja erindi á ráðstefnunni. Auk þess verða nokkur íslensk erindi. Sjá nánari dagskrá.
Við lok þessa skólaárs munu 400 nemendur frá 43 löndum hafa útskrifast eftir sex mánaða sérhæft nám við Jarðhitaskólann og 16 lokið MSc námi við Háskóla Íslands í samvinnu við Jarðhitaskólann. Næsta vetur verða væntanlega tíu við meistaranám og fjórir fyrrum nemendur Jarðhitaskólans við doktorsnám í Háskóla Íslands, tveir á styrkjum frá Jarðhitaskólanum og tveir á styrkjum frá öðrum aðilum.

Jarðhitaskólinn hefur einnig staðið fyrir árlegum jarðhitanámskeiðum fyrir Afríkulönd (í Kenýa) frá 2005, fyrir lönd Mið-Ameríku (í El Salvador) frá 2006, og fyrsta árlega námskeiðið fyrir Asíulönd var haldið í Kína í maí sl. Námskeiðin eru hluti af framlagi Íslands til Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Nemendur Jarðhitaskólans eru leiðandi í jarðhitastarfsemi fjölmargra landa. Þetta kemur greinilega fram, bæði innan viðkomandi landa og á alþjóðavettvangi. Á afmælisráðstefnunni flytja fyrrum nemendur frá 18 þróunarlöndum erindi um rannsóknir sínar, jarðhitanotkun í heimalöndunum, og framlag Jarðhitaskólans til miðlunar jarðhitaþekkingar undanfarin 30 ár.

Jarðhitadeild Orkustofnunar og síðar ÍSOR hafa verið burðarásinn í starfsemi Jarðhitaskólans, en skólinn hefur einnig notið ómetanlegs stuðnings fjölda starfsmanna Orkustofnunar. Þið sem tengst hafið starfi skólans munuð sjá marga kunningja í nemendahópnum á ráðstefnunni.