Fréttir


Samstarfssamningur undirritaður milli Ástralíu, Bandaríkjanna og Íslands um hátækni og aukin afköst jarðvarmakerfa

30.8.2008

Nýr kafli í samskiptum Bandaríkjanna, Ástralíu og Íslands hófst í dag með undirritun alþjóðlegs samstarfssamnings um jarðhitatækni í húsakynnum Keilis hf. á Keflavíkurflugvelli en þar voru lögð drög að þessu vísinda- og tæknisamstarfi fyrir réttu ári.
frett_30082008

Markmið samningsins á milli ríkisstjórna landanna er að auka afrakstur jarðhitakerfa og vinna markvisst að þróun nýrrar hátækni við jarðhitanýtingu. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd, en Katharine Fredriksen, aðstoðarráðherra í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, og Sharyn Minahan, sendiherra Ástralíu, undirrituðu samninginn fyrir hönd þjóða sinna.

Samkvæmt skipulagsskrá Alþjóðleg samtaks um jarðhitatækni - International Partnership for Geothermal Technology (IPGT) – skuldbinda stjórnvöld sig til að leggja sig fram um að þróa og kynna hátækni á sviði jarðhitavinnslu sem komið geti að góðum notum við að tryggja orkuöryggi og umbætur í loftslagsmálum. Ísland og Bandaríkin leggja þessu samstarfi til sérfræðiþekkingu sem skapast hefur við þá forystu sem þau hafa í beislun jarðhita- og vatnsorku. Ástralía hyggur á umfangsmikla nýtingu jarðvarma á næstu árum. Samtakið mun einkum beinast að þróun tækni og aðferða sem miða að því að auka afrakstur jarðhitakerfa, fullkomna djúpborunartækni og bæta umbreytingu jarðvarma í aðrar tegundir orku.

Ráðuneyti orkumála í Bandaríkjunum, ráðuneyti auðlinda, orku- og ferðamála í Ástralíu og ráðuneyti iðnaðar-, orku-, byggða og ferðamála á Íslandi munu vinna saman að því að skilgreina og hvetja til rannsókna, þróunar og nýtingar í tengslum við verkefni sem geta leitt til aukinna afkasta jarðhitakerfa og árangurs í notkun djúpborunartækni. Miðlað verður upplýsingum um bestu aðferðir og tækni sem nýst getur á hverjum tíma og við mismunandi aðstæður. Þá verður leitast við að auka stuðning við jarðhitanám og þjálfun í jarðhitafræðum.

Á vegum ráðuneytanna var efnt til tveggja daga vinnufundar sérfræðinga frá ríkisstjórnum, orkuiðnaði og háskólum þar sem skilgreind voru nánar forgangsverkefni í rannsóknum, þróun og nýtingu jarðvarma. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Orkustofnun hafa haft veg og vanda af sérfræðilegum undirbúningi samstarfsins ásamt Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra leggur áherslu á að tilgangurinn með samstarfinu sé að stórauka nýtingu á jarðhita í öllum heimsálfum með því að þróa tækni og þekkingu og skila henni áleiðis til heimsbyggðarinnar. Hlutverk ríkisstjórna landanna sé að afla upplýsinga um jarðhitasvæði og hjálpa til þess að þróa umhverfið þannig að orkufyrirtæki geti virkjað þau til hagsbóta fyrir almenning.

IPGT samtakið – Alþjóðlegt samtak um jarðhitatækni – er opið fyrir öðrum löndum sem vilja skuldbinda sig til þess að hefja nýja tækni í jarðhitavinnslu til vegs og virðingar.