Fréttir


Ísland gerir samstarfssamning við Bandaríkin og Nýja Sjáland um aukna notkun hreinnar orku og þróun nýrrar tækni til betri orkunýtingar

12.9.2008

Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, sat fund þ. 27. ágúst með Katharine Fredriksen, aðstoðarráðherra í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, þar sem hann undirritaði fyrir hönd Íslands samning um alþjóðlegt samtarf um þróun endurnýjanlegrar orkunotkunar eyríkja, International Partnership for Energy Development in Island Nations (EDIN). Bandaríkin og Nýja Sjáland undirrituðu samninginn upphaflega 24. júlí sl.

Með undirritun samningsins gengur Ísland til liðs við Bandaríkin og Nýja Sjáland til þess að mynda samstarfsvettvang fyrir eyríki og og hliðstæð byggðarlög með það að markmiði að stuðla að aukinni notkun hreinnar orku og þróun nýrrar tækni til hagkvæmari orkunýtingar.

Eyríki eru að miklu leyti háð innfluttu jarðefnaeldsneyti til rafmagnsframleiðslu og samgangna, og hafa þ.a.l. orðið sérstaklega illa úti vegna hækkandi olíuverðs. Hlutverk samstarfsvettvangsins verður að vinna sameiginlega með eyríkjum og hlitstæðum svæðum í að auka stöðugleika í orkumálum og minnka þörf á jarðefnaeldsneyti með því að virkja innlenda og endurnýjanlega orkugjafa s.s. sólarorku, vindorku og jarðhita. Fyrir samstarfið þýðir undirskrift Íslendinga það að nú er hægt að hefja verkefnabundna vinnu með eyríkjum, með það að markmiði að þróa skynsamlega orkustefnu, fjármögnunarleiðir og hvata til þróunar á tækni til betri orkunýtingar þar sem þörfin er mest.

Íslendingar hafa góða reynslu í jarðhitamálum og hafa þegar gengið í gegnum þá umbreytingu að frá þvía að vera eyþjóð háð innfluttu jarðefnaeldsneyti til þess að nýta endurnýjanlega orkugjafa, líkt og jarðhita og vatnsafl til framleiðslu á 99,9% af raforkunotkun þjóðarinnar og næstum 80% af allri frumorkunotkun. Aðild Íslendinga mun því færa mikla sérfræðiþekkingu inn í samstarfið.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri lýsir yfir mikilli ánægju með þennan samning. Við Íslendingar höfum verið framarlega í virkjun endurnýjanlegrar orku og nú eru tímamót þar sem við þurfum að leggja stóraukna áherslu á raunhæfar aðferðir til þess að nýta þessa orku fyrir samgöngur og fiskveiðar í stað influtts eldsneytis. Hjá eylöndum með einangruð orkukerfi geta skapast um margt betri aðstæður til þess að finna hagkvæmar lausnir í þessum efnum. Með þessu samstarfi getum við stillt saman þróunarstarfi fleiri landa og þannig náð árangri fyrr en ella.

Stjórnarnefnd samstarfsvettvangsins býður til samstarfs öðrum eyríkjum, sem hafa, með stefnumörkun stjórnvalda, þegar skuldbundið sig til þess að auka hlut hreinnar orku. Í stjórnarnefndinni sitja fyrir hönd Íslands Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Ólafur G Flóvenz forstjóri Ísor.