Fréttir


Raforkuspá 2008 - 2030

23.9.2008

Orkustofnun hefur gefið út raforkuspá fyrir árin 2008 – 2030. Spáin sem unnin er á vegum Orkupárnefndar er endurreikningur á spá frá árinu 2005 út frá nýjum gögnum og breytum forsendum, sem eru mannfjöldi, fjöldi heimila, landsframleiðsla og framleiðsla einstakra atvinnugreina.

Almennri raforkunotkun er skipt niður í sex flokka auk dreifi- og flutningtapa svo og notkun vinnslufyrirtækja. Fyrir raforkunotkun til stóriðju er miðað við samninga sem þegar hafa verið gerðir. Samkvæmt endurreikningnum mun almenn notkun forgangsorku aukast um 16% fram til ársins 2015 og um 60% alls næstu 23 árin. Árleg aukning notkunar er 2,1%. Við þennan endurreikning á spánni frá 2005 hefur áætluð forgangsorka aukist um 704 GWh fram til ársins 2030, mest á höfuðborgarsvæðinu.

Í spánni er einnig að finna ítarlegar skýrslur um raforkuvinnslu fyrirtækja árið 2007 svo og flæði raforku um dreifiveitur skipt niður eftir notkunarflokkum og greint niður á dreifiveitusvæði, landshluta og afhendingarstaði Landsnets. Þá er ennfremur að finna skiptingu afls á mesta álagstíma ársins milli vinnslufyrirtækja, landshluta, aðveitustöðva, stórnotenda og almennra notenda.