Jólaerindi orkumálastjóra
Ágætu starfsmenn.
Þegar við nú búum okkur undir jól og áramót þá er umhverfið í þjóðfélaginu mikið breytt frá því sem var fyrir þremur mánuðum síðan. Þau himinfley íslenskra fjármála- og útrásarfyrirtækja sem sigldu hvassan beitivind hafa nú mörg hver brotlent eða laskast mikið í brimsjó umróts og hrævarelda á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Manni kemur í hug briggskipið Wasa sem byggt var 1628 í Stokkhólmi. Ekkert var sparað í glæstri yfirbyggingu og 68 þungum fallstykkjum úr bronsi komið fyrir á tveimur dekkjum til þess að eiga í fullu tré við óvininn. Hins vegar var minna hugað að ballest og stöðugleika skipsins, mönnum lá mikið á og í fyrstu ferðinni, rétt utan við höfnina, setti sterk vindhviða skipið á hliðina, það tók inn vatn og sökk. Náttúrulega mikil ógæfa fyrir alla hagsmunaaðila, sér í lagi þá sem fengu að súpa hel, en hins vegar gæfa okkar seinni tíma manna að skipið sökk innarlega í firðinum þar sem er hálfsaltur sjór. Við þær aðstæður þrífast trjámaðkar ekki og ekki heldur sú sveppa- og bakteríuflóra sem í ferskvatni grandar timburvirkjum. Meira en þrjú hundruð árum seinna, 1956, lóðaði verkfræðingur og seinna prófessor við KTH, Anders Fransén, á skipið og eftur áratuga björgunar- og forvarnarstarf er skipið nú komið á safn, Wasa safnið í Stokkhólmi, sem er eitt merkilegasta og fjölsóttasta safn vesturlanda. Ef til vill kennir þetta okkur annars vegar að við þurfum að huga vel að undirstöðunum fyrir öllum okkar gerðum en samtímis að í stórum áföllum getur myndast vísir að nýjum ófyrirséðum möguleikum. Við erum hins vegar ekki tilbúin að bíða í nokkur hundruð ár eftir að sprotar vaxi.
Þetta ár sem ég nú hef gegnt starfi orkumálastjóra hefur verið afar lærdómsríkt. Starfsemi stofnunarinnar er afar fjölþætt og starfsbræður mínir í útlöndum, sem hafa fengið yfirlit um starfsemi stofnunarinnar spyrja hve mörg hundruð manna þurfi til þess að sinna þessu öllu. Þetta er nú eins og með annað á Íslandi þar sem haldið er uppi litlu þjóðríki með þeim persónum og leikendum sem til þarf að það reynir mjög á fjölhæfni þeirra sem störfin vinna. Við höfðum stundum á orði kollegarnir á KTH að til þess að standa sig vel sem prófessor þyrfti maður að að hafa söluhæfileika eins og tyrkneskur teppasali og síðan þyrfti maður að vera eins og svissneskur fjölnotahnífur, þ.e. geta sinnt afar mismunandi verkefnum. Þetta á nú ekki síður við á Orkustofnun þar sem verkefni eins og olíuleit, malartekja á hafsbotni og verndun grunnvatns geta lent á borði eins og sama sérfræðingsins á sama tíma svo dæmi sé tekið.
Nú berast fregnir af því að þau erlendu stórfyrirtæki sem stefnt hafa á fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á næstu árum séu mörg hver að endurskoða áætlanir sínar. Okkur hættir til að gleyma því að það kreppuástand sem skollið er á er á engan hátt eingöngu bundið við Ísland. Það sem er reyndar óvenjulegt við þessa kreppu er að hún nær til heimsins alls sem færir okkur heim sanninn um að hnattvæðingu atvinnu- og viðskiptalífs hefur fleygt fram á undanförnum árum. Samdráttur og yfirvofandi rekstrarstöðvun í mikilvægum iðngreinum eins og t.d. bifreiðaframleiðslu hefur samstundis áhrif á eftirspurn eftir hráefnum og lækkandi álverð á alþjóðamarkaði og hefur skjót áhrif á fjárfestingaráform álframleiðslufyrirtækjanna. Jafnvel fyrir þessi stóru fyrirtæki verður öflun lánsfjár vandasöm við slíkar aðstæður.
Ný fjárlagatillaga sem nú er til umfjöllunar gerir ráð fyrir niðurskurði um u.þ.b. 5% frá fyrri fjárlagatillögu. Þetta veldur að sjálfsögðu ákveðnum erfiðleikum en verður að teljast viðunandi miðað við þann fjárhagsvanda sem nú blasir við ríkissjóði. Það er hins vegar samdóma álit innlendra og erlendra sérfræðinga að möguleikar okkar til þess að vinna okkur út úr þessarri stöðu byggja að verulegu leyti á fjárfestingum í orkugeiranum og því rökrétt að ríkisvaldið gangi ekki of nærri okkar starfsemi. Niðurskurðurinn mun að hluta hafa áhrif á fjármagn til rannsókna á næsta ári og að hluta mun þessu verða mætt með því að fresta enn um sinn ráðningum og með auknu aðhaldi í rekstri. Það er og athyglisvert að framlag ríkisins til Jarðhitaskólans mun ekki mæta stórfelldum niðurskurði og ljóst að menn líta á þá starfsemi sem hluta af kjarnanum í okkar alþjóðlega hjálparstarfi.
Í þessarri stöðu er eðlilegt að við spyrjum okkur hvort við getum með einhverju móti orðið að liði til þess að finna leiðir til þess að efla atvinnusköpun í þjóðfélaginu. Vönduð stjórnsýsla og frumkvæði að efldum rannsóknum á nýtingarmöguleikum auðlinda okkar er einn af hornsteinum atvinnulífs og velmegunar til lengri tíma litið en á okkar sviði liggja einnig möguleikar til atvinnusköpunar með minni fyrirvara. Á vegum Iðnaðarráðuneytis hefur verið stofnaður samráðshópur forstöðumanna stofnana sem heyra undir ráðuneytið. Vissulega eru stofnanir eins og Nýsköpunarmiðstöð, Byggðastofnun og Ferðamálastofa nær markaðinum en við, en á okkar sviði liggja t.d. möguleikar á sviði orkunýtingar og orkukerfa í húsum á köldum svæðum. Framkvæmdir sem gætu orðið til hagsbóta bæði fyrir einstaklinga og ríkissjóð með minnkandi niðurgreiðslum ef rétt er á málum haldið. Einnig má benda á að upplýsingastarf orkuseturs um bætta orkunýtingu í samgöngum hefur beina þýðingu fyrir gjaldeyrisbúskap þjóðarbúsins. Það er mikilvægt að við verðum áfram vakandi og höldum til haga nýjum hugmyndum sem gætu haft þýðingu í þessu efni.
Þeirri spurningu hefur nokkrum sinnum verið beint til mín á undanförnum mánuðum hvernig það geti farið saman að Ísland sem er að reyna að vinna sér sess á alþjóðavettvangi sem forystuland í nýtingu vistvænnar orku hyggi nú á vinnslu kolvetnaeldsneytis á Drekasvæðinu við Jan Mayen og stuðli þannig að aukinni notkun kolvetnaseldsneytis á tímum sem brýn nauðsyn virðist vera á að draga úr notkun þess. Ég verð að játa hreinskilningslega að þessi spurning olli mér talsverðum heilabrotum. Við nánari skoðun mína á þessum málum vakti athygli mína að mótmæli gegn olíuvinnslu úti um heim hafa oftast verið staðbundin og miðast fyrst og fremst við hugsanlegt rask á viðkvæmum náttúrusvæðum eins og í Alaska eða ótta fólks við afleiðingar óhappa við vinnsluna eins og úti fyrir ströndum Bandaríkjanna. T.d. í Noregi þar sem menn hafa verið stórtækir í vinnslu olíu og gass á hafsbotni er ekki hægt að segja að myndast hafi sérstaklega mikill pólitískur þrýstingur á stjórnvöld vegna aukinnar kolefnislosunar þótt deilt sé um aðkomu að einstökum svæðum. Við vitum að olíuskortur veldur miklum óróa og óstöðugleika í heimshlutum sem hafa þurft að þola mikið vegna styrjaldarátaka á undanförnum áratugum. Það sem við líka vitum er að kolaforði heimsins endist okkur í 300 ár til viðbótar. Bruni kola gefur meiri mengun af kolefni og öðrum gróðurhúsalofttegundum en bruni olíu eða gass. Þótt kjósendum í Bandaríkjunum hafi verið lofað hreinum kolaorkuverum í síðustu forsetakosningum er enn allt óvíst um tæknilegar útfærslur og hagkvæmni slíkra orkuvera. Einnig er vandséð hvernig farga má því kolefnisfjalli sem til fellur við slíka hreinsun. Á alþjóðlegum þingum um orkumál hef ég orðið þess var að forsvarsmenn kjarnorkunnar hafa á ný tekið upp baráttuna fyrir byggingu nýrra kjarnorkuvera og þeirra megin röksemd er að þau séu mun betri kostur en kolaorkuverin með tilliti til kolefnislosunar. Það liggur beint við að minnkandi framboð á olíu og gasi mun mjög auka á þrýsting um að byggð verði ný kjarnorkuver. Það má því leiða að því gild rök að hugsanleg ákvörðun Íslands um að leyfa ekki aðgang að olíu- og gaslindum sínum hafi neikvæð áhrif á þróun kolefnislosunar, stöðugleika og friðarstarf í viðkvæmum heimshlutum og geti stuðlað að byggingu nýrra kjarnorkuvera. Íslendingar hafa, vegna reynslu sinnar af nýtingu jarðvarma, lykilinn að kolefnislausri raforkuframleiðslu á heimsvísu sem getur numið allt að 150 GW í afli. Áhrifameiri leið til þess að stuðla að minni kolefnislosun væri þá frekar að verja hluta af tekjum af hugsanlegri olíuvinnslu til þess að fjárfesta í nýtingu jarðhita annars staðar í heiminum.
Nú minnast menn afmælis þeirra málaferla sem enduðu á aðskilnaði dómsvalds og löggæsluvalds í landinu. Í ágúst var nýrri skipan komið á þannig að leyfisveitingar vegna rannsókna, auðlindanýtingar og orkuvinnslu eru nú í höndum Orkustofnunar en úrskurði stofnunarinnar er síðan hægt að kæra til Iðnaðarráðuneytisins. Áður var Orkustofnun umsagnaraðili og ráðgjafi ráðuneytsins vegna slíkra mála. Þetta leggur okkur nýjar skyldur á herðar sem við verðum að bregðast við, ekki einungis með því að styrkja okkur á sviði lögfræðinnar heldur á metnaður okkar að vera að ákvarðanir okkar séu byggðar á styrkum fræðilegum grunni og jafnframt að málsmeðferð okkar allra sem að þessu vinnum sé þannig að ekki skapist réttaróvissa um okkar gerðir. Þannig ber okkur að forðast allar ótímabærar yfirlýsingar sem geta skapað vanhæfi okkar til þess að fella endanlegan úrskurð í þeim málum sem okkur eru falin. Þetta er samt ekki alveg einfalt. Orkustofnun er umsagnaraðili á fleiri stigum meðferðar mála sem síðan get komið til úrskurðar okkar. Þá er skylda okkar að draga fram í dagsljósið þau álitamál sem við teljum að þurfi að taka tillit til. Það þurfum við að gera með því að draga fram staðreyndir og rök í málinu án þess að útiloka það að nýir hlutir geti komið fram sem breytt geti myndinni. Á Orkustofnun er líka samankomin yfirgripsmikil þekking á auðlinda- og orkumálum þjóðarinnar sem nauðsynlegt getur verið að koma á framfæri í hinni pólitísku umræðu. Það er mjög jákvætt að við látum til okkar heyra til þess að koma umræðunni á hærra stig. Samtímis eiga landsmenn kröfu á að við skoðum þau mál sem við höfum til umfjöllunar á hlutlægan hátt í samræmi við lög, reglugerðir og markmið stjórnvalda. Það er ekki ætlun mín að leggja múl á stafsmenn mína en fyrir sjálfan mig get ég sagt að smekkur minn fyrir því að troða skoðum mínum niður í kok á samferðamönnum mínum hefur mikið dofnað með árunum og sú tegund umræðulistar sem á ágætlega við þegar menn bera saman bækur sínar um ágæti Liverpool eða Chelsea fer svona frekar í taugarnar á mér þegar kemur að alvörumálunum. Hin sanna nautn felst hins vegar í því að koma fram með ný sjónarhorn, nýja þekkingu og ný sjónarmið og geta með því talið sér trú um að maður hafi skilað umræðunni á nýtt og betra stig. Ég tel að með þetta að leiðarljósi sé vel hægt að koma inn í umræðuna með jákvæðum hætti án þess að tefla orðspori og hlutlægni stofnunarinnar í tvísýnu. Það breytir ekki því að við getum alltaf átt von á tortryggni þeirra, sem finnst gerðir og ákvarðanir okkar brjóta í bága við þeirra hagsmuni eða þjóðfélagslegu markmið.
Um áramót munu Vatnamælingar sameinast Veðurstofunni í nýrri stofnun, Veðurstofu Íslands. Þá er lokið því ferli sem hófst fyrir nokkrum árum til þess að aðgreina stjórnsýslu og þjónusturannsóknir. Forsjá mælinga á vatnafari mun samkvæmt samningi milli Iðnaðarráðuneytis og Umhverfisráðuneytis flytjast frá Orkustofnun yfir á Veðurstofu Íslands og þar með verulegur hluti þeirra fjármuna sem varið hefur verið til vatnafarsrannsókna. Orkustofnun ber þó ennþá ábyrgð á rannsóknum sem tengjast vatnsbúskap raforkuframleiðslunnar og vatni sem auðlind. Það er við þessu tímamót rétt að benda á að Orkustofnun getur verið stolt af þeim afkvæmum sínum, þ.e. Ísor og Vatnamælingum, sem hleypt hafa heimdraganum. Þetta eru stofnanir með mikinn vísindalegan metnað, hæft starfsfólk og þær gegna mikilvægu hlutverki í rannsóknum á náttúrufari sem jafnframt eru undirstaðan að nýtingu orkulindanna. Það er fyrir mér nú ljóst að fyrir þessum aðskilnaði voru og eru gild rök. Það væri afleit staða ef við værum að veita leyfi til rannsókna, auðlindanýtingar og virkjana til viðskiptavina okkar, sem síðan keyptu af okkur tengda þjónustu. Þar með yrði afkoma okkar háð því hve jákvæð við erum í leyfisveitingum. Á sama hátt getum við ekki reitt okkur alfarið á aðila sem stunda þjónusturannsóknir um alla ráðgjöf vegna umsagna og leyfisveitinga. Orkustofnun verður að búa yfir góðri sérfræðiþekkingu innanhúss þannig að stofnunin geti myndað sér sjálfstætt og óháð álit á þeim málum sem til okkar kasta koma þótt undirbúningsvinnan byggi á aðkeyptri þjónustu. Þarna þarf að leita ákveðins jafnvægis og það er skoðun mín að við þurfum enn að styrkja þann hóp sérfræðinga sem hjá okkur vinna, þótt við um sinn munum fara varlega í mannaráðningar í ljósi þeirrar stöðu sem ríkisfjármálin eru í. Við sjáum einnig fram á breytingar á því sameiginlega rekstrarumhverfi sem verið hefur í húsinu með því að fjárhags- og starfsmannabókhald Vatnamælinga færist til Veðurstofunnar og Ísor tekur bókhaldið til sín. Þetta þýðir að samvinna í rekstri verður með öðrum hætti en áður. Við munum hins vegar leitast við að leysa þau mál þannig að verkefni skapist fyrir núverandi starfsfólk. Það er einnig líklegt að rekstur Orkustofnunar og Jarðhitaskólans eftir þessar breytingar verði of lítill til þess að bera til lengri tíma sérstaka bókhaldsdeild og að við þurfum að leita annarra lausna.
Jarðhitaskólinn sem átti 30 ára afmæli á árinu hefur nú treyst stöðu sína sem menntastofnun. Alls hafa nú útskrifast 16 meistaraprófsnemar þar af 5 á þessu ári. Fyrsti doktorsneminn hefur nú hafið störf og annar er á leiðinni. Frá 2005 hófst nýr áfangi þegar skipulögð voru námskeið fyrir jarðhitamenn sem nú hafa verið haldin í Afríku, Mið-Ameríku og nú á þessu ári einnig í Asíu. Jarðhitaskólinn flutti í nýinnréttað húsnæði á fyrst hæð Orkugarðs á árinu.
Á jarðhitasviðinu ber hæst aðkomu okkar að djúpborunarverkefninu, þar sem við, í samstarfi við orkufyrirtæki og stofnanir á Íslandi og erlendis, höfum ráðist í það stórvirki að bora dýpra og eftir heitari vökva, allt að 600°C, en áður er þekkt. Eftir miklu er að slægjast þar sem það afl í raforku sem fengist úr einni slíkri holu gæti numið allt að 50 MW. Við vitum hins vegar að til þesss að nýta slíka holu þurfum við að þróa aðferðir og tækni sem tekur á þeim vandamálum sem hár hiti og efnamengun skapa. Umræður um sjálfbærni jarðhitans hafa skapað áleitnar spurningar sem leita þarf svara við. Í tengslum við rammaætlun erum við aðilar að innlendum starfshópi um sjálfbærni jarðhitans og innan IEA - alþjóða orkumálaskrifstofunnar hafa sérfræðingar frá Orkustofnun og Ísor forystu um vinnuhóp með svipuð markmið.
Stofnunin heldur uppi skráningu á þeim jarðhitaholum sem boraðar eru. Á árinu voru boraðar 38 rannsóknarholur til þess að mæla hitastigul og 8 holur til öflunar á heitu vatni. Af þeim má segja að 7 hafi tekist en sú dýrasta sem boruð var í Tungudal á Ísafirði gaf ekki þann árangur sem vænst var og hefur henni nú verið lokað. Boraðar voru 28 gufuholur mest í Þingeyjarsýslu, á Hellisheiðinni og á Suðurnesjum.
Í raforkueftirlitinu hafa nokkrar línubyggingar og virkjanir komið inn til umsagnar. Stofnunin annast eftirlit með kostnaði við flutning og dreifingu raforku. Nú byggist þetta eftirlit á bókhaldslegum upplýsingum fyrirtækjanna en til lengri tíma litið er ætlunin að bera saman kostnað við flutning og dreifingu á Íslandi við það sem best gerist hjá sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu. Í þessu skyni er unnin samanburðargreining (benchmarking) þar sem lykiltölur eða úrvinnsla úr lykiltölum (t.d. rekstrarkostnaður, umfang kerfis, magn orku, þjónustusvæði, landfræðiaðstæður, veðuraðstæður) sambærilegra fyrirtækja eru bornar saman og gefnar einkunnir. Þá er gengið út frá að önnur fyrirtæki geti náð sama árangri og það sem best kemur út. Á niðurstöðum slíkrar greiningar myndi hagræðingarkrafa Orkustofnunar vera byggð.
Belgiskt fyrirtæki, Sumicsid, var fengið til að setja upp kerfi til að vinna samanburðargreiningu á dreifiveitum fyrir stofnunina, en vinnan við það hefur dregist vegna sam-evrópskrar samanburðargreiningar á flutningsfyrirtækjum. Þar sem íslensku dreifiveiturnar eru fáar, afar misstórar og þjónustusvæði þeirra ólík (þéttbýli - dreifibýli) hafa verið valin skandinavísk fyrirtæki til samanburðar við þau íslensku. Vonast er til að niðurstöður úr samanburðargreiningu á dreifiveitum liggi fyrir fyrir mitt næsta ár.
Fyrir liggur í drögum samanburðargreining flutningsfyrirtækja í Evrópu. Endanleg niðurstaða mun þó ekki liggja fyrir fyrr en snemma vors. Fyrstu niðurstöður gefa þó til kynna að Landsnet ætti að geta bætt rekstur sinn nokkuð, en eftir er að fara betur yfir ýmsar forsendur.
Nú stendur yfir endurskoðun á raforkulögum í samræmi við ákvæði í lögunum sjálfum. Skipuð hefur verið nefnd og á orkumálastjóri sæti í henni. Það er mjög mikilvægt að við fylgjumst grannt með þessu starfi og komum sjónarmiðum okkar á framfæri. Hnökrar og misfellur í lagaumhverfinu geta gert okkur afar erfitt fyrir í stjórnsýslunni og við höfum þegar slík dæmi í núverandi lögum sem við viljum koma á framfæri. Það er líka þannig að fyrirtækin geta stundum komið með gild rök fyrir því að skipan mála ætti að vera önnur en nú er. Okkur er hins vegar skylt að starfa eftir laganna bókstaf í okkar eftirliti og þegar við skerum úr um álitamál. Við endurskoðun laganna skapast hins vegar tækifæri til kerfisbreytinga ef samkomulag getur náðst um það.
Undirbúningur á útboði leyfa til olíuleitar er nú á síðustu metrunum. Það hefur ekki verið átakalaust að vinna hér alveg nýtt svið þar sem álitaefnin eru mörg og flókin. Mér sýnist að starfsmenn stofnunarinnar séu að vinna hér mikið og gott starf. Sjálfsagt hefði þetta verið ennþá erfiðara, ef við hefðum ekki notið liðsinnis Norðmanna og ekki síst Færeyinga, sem hafa með örlátum hætti miðlað okkur af reynslu sinni. Við breyttar aðstæður og fall olíuverðs á heimsmörkuðum vorum við á Orkustofnun að sjálfsögðu uggandi um að áhuginn á að sækja um leyfi myndi dofna, en enn sem komið er höfum við engar slíkar vísbendingar frá þeim sem hafa sýnt útboðinu áhuga. Það er talið að olíulindir í kringum Norðurskautið nemi um fimmtungi þekktra olíubirgða og þótt aðstæður séu um margt erfiðari en á suðlægum breiddargráðum virðast fyrirtækin hafa gert sér grein fyrir að inn á þetta svæði verða þeir að fara fyrr eða síðar. Landgrunnsverkefnið er annað stórt verkefni sem við höfum haft umsjón með þar sem unninn er undirbúningur að kröfugerð Íslands í þeim samningum sem framundan eru um skiptingu landgrunnsins.
Eitt af brýnustu verkefnum okkar er að minnka notkun jarðefnaeldsneytis á landi og á sjó. Upplýsingagjöf orkuseturs og reiknivél sem menn geta notað til þess að sjá áhrifin af vali á bifreið og ýmsum sparnaði bæði m.t.t. fjárhagslegrar afkomu og mengunar skilar strax árangri. Áhrif kreppunnar hafa líka verið þau að stórir og eldsneytisfrekir bílar hafa verið seldir úr landi. Horft til framtíðar þá skiptir miklu máli að við finnum nýja orkugjafa fyrir hina hreyfanlegu orkunotendur. Þróunin í umheiminum er hröð og það ríkir hörð samkeppni milli mismunandi lausna eins og t.d vetnisbíla og rafmagnsbíla. Orkustofnun stóð á árinu að samkomulagi við Mitsubishi fyrirtækin um samstarf um annars vegar rafmagnsbíla og notkun þeirra á Íslandi og hins vegar um hagkvæmnikönnun á því að framleiða eldsneyti eða svo kallaðan Dímetýleter eða DME úr koltvísýringi úr útblæstri járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og vetni sem fengið er með rafgreiningu á vatni. Ný eldsneytisspá var unnin frá grunni á síðasta ári og er nú að koma úr prentun. Til skemmri tíma litið ákvarðast breytingar á orkunotkun á demógrafískum og hagrænum þáttum en til lengri tíma litið koma tæknibreytingar inn í myndina. Þær breytingar sem nú hafa orðið á efnahagsumhverfinu hljóta að hafa tiltölulega snögg áhrif.
Á árinu hefur verið unnið mikið starf í því að koma prentgögnum stofnunarinnar á tölvutækt form og að bæta aðgengið að þeim. Þetta er afar mikilvægt til þess að við getum sinnt okkar hlutverki að skapa almennt aðgengi að rannsóknaniðurstöðum og skýrslum sem unnar hafa verið fyrir almannafé og eru jafnframt grundvöllur að markvissum áframhaldandi rannsóknum á auðlindunum. Bókasafnið er nafið í því vísinda og fræðslustarfi á sviði jarðvísinda sem unnið er í Orkugarði og utan hans. Við þurfum á næsta ári að gera átak í markvissri öflun fræðirita sem tengjast okkar núverandi verksviðum.
Helstu verkefnin í gagnamálum 2008 má í fljótu bragði telja eftirfarandi:
- Þátttaka í verkefni um Náttúruvefsjá sem opnuð var á netinu í október í samstarfi við Vatnamælingar og Gagarín
- Þróun Landgrunnsvefsjár OS í samstarfi við Gagarín og gerð gagnaþekja vegna Drekasvæðisins í samstarf við ÍSOR. Landgrunnsvefsjáin mun verða birt á netinu upp úr áramótum Uppfærslur á ýmsum gagnasöfnum Orkustofnunar hafa verið gerðar á árinu og nákvæm skráning grunnkorta Orkustofnunar með hnitum er langt komin og hafin er heildarskönnun á þeim kortaflokki
- Skönnun og skráning myndasafns sem sýnir borstaði (alls um 7000 myndir)
- Í gangi er vinna með Vatnamælingum annars vegar og ÍSOR hins vegar v/gagnaskipta.
- Mörg verkefni eru í undirbúningi sem öll miða að því að auðvelda aðgengi að gögnum með svokölluðum vefsjám og í gegnum þær skapa aðgang að rafrænum grunnheimildum.
Hér í Orkugarði hefur verið afar gestkvæmt í ár. Heimsóknir og kynningar fyrir erlendar sem og íslenskar sendinefndir hafa verið fleiri en önnur ár, en það hafa verið 24 slíkar kynningar síðan í apríl. Kynningarstjóri hefur einnig unnið með utanríkisráðuneytinu að kynningarpakka fyrir íslensk sendiráð, sem þau geta þá nýtt til að kynna orkumál á Íslandi. Kynningarpakkinn inniheldur glærusýningu með nýjustu orkutölum og útskýringum, einfaldan bækling um orkumál á Íslandi og orkutölupésann.
Á næsta ári verða á Íslandi tvær stórar ráðstefnur sem tengjast starfsemi okkar. Á fundi WEC í Róm á fyrra ári buðust Íslendingar til þess að halda stjórnarþing WEC – World Energy Council – Executive Assembly í september 2009. Á stjórnarþingi WEC í Mexikóborg í nóvember mættu síðan orkumálastjóri og kynningarfulltrúi Orkustofnunar til þess að árétta boðið þótt aðstæður hér heima fyrir væru ekki beint glæsilegar. Í júní á næsta ári verður ráðstefna á vegum IHA um vatnsaflsvirkjanir. Í sambandi við hana er ætlunin að skila niðurstöðum vettvangs um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana sem starfað hefur þetta ár með stuðning Noregs, Íslands og Þýskalands og þar sem ætlunin er að koma saman heildstæðum matslykli þar sem tillit er tekið til margra þátta. Þá fer líka að hilla undir verklok annars áfanga rammaáætlunar og þá verður lokið flestum þeim stærri rannsóknaverkefnum sem henni tengjast.
Hvaða áherslumál verða svo helst í upphafi nýs árs?
Unnið hefur verið við gerð nýrrar heimasíðu Orkustofnunar, sem fer í loftið fljótlega eftir áramótin. Mikil vinna og endurskipulagning hefur farið í þetta verkefni. Efni og endurskipulagning síðunnar var unnin í samvinnu við stóran hluta starfsfólks Orkustofnunar og ætlunin er að ný heimasíða verði bæði aðgengileg og notendavæn. Ný heimasíða er mikilvægur hlekkur í kynningarmálum Orkustofnunar og er eitt öflugasta samskipta- og boðtæki nútímans. Heimasíðan er andlit stofnunarinnar út á við og þar verður þjónusta sem og sérhæfð þekking starfsfólks Orkustofnunar á orkumálum gerð aðgengileg bæði fyrirtækjum og almenningi. Opnun nýrrar heimasíðu verður samt enginn endapunktur, þar sem lykillinn að góðri markaðsetningu á netinu er að halda síðunni í stöðugri þróun. Stöðugar endurbætur og viðhald upplýsinga er afar mikilvægt, og verður starfsfólki OS gefið það hlutverk að fylgjast með að efni tengt þeirra sérsviði sé það nýjasta.
Við þurfum að koma okkur upp markvissara skipulagi sem er lagað að breyttum forsendum. Við þurfum að koma okkur upp nýjum verklagsreglum með skýrum boðleiðum og hvernig samstarfi sérfræðinga sem fjalla efnislega um málin og lögfræðinga sem setja málin í lagalegt samhengi og endanlegan búning skuli háttað. Fara þarf yfir og skilgreina sérsvið einstakra sérfræðinga og fela þeim aukna ábyrgð við að móta stefnu (policy) stofnunarinnar á sínu sérsviði og hafa viðbúnað til þess að svara fyrir hana út á við.
Þegar nú 2. áfanga rammaáætlunar lýkur þá verður vonandi svigrúm og lag til þess að huga að nýjum framsæknum rannsóknaverkefnum. Við sjáum nú þegar brýn verkefni sem bíða eins og bætta orkunýtingu í jarðhitanum, forðafræði háhitakerfa, hljóðdeyfingu og eyðingu gufu frá útblæstri, eyðingu brennisteinsvetnis, leit að háhita utan þekktra jarðhitasvæða, möguleika á rennslisvirkjunum í fallvötnum, sjávarfallavirkjanir, orkulausnir fyrir köld svæði, línulagnir og náttúruvernd, arkitektúr mannvirkja til orkuframleiðslu, flutnings og orkufreks iðnaðar, auðlindahagfræði og auðlindastjórnun og svona má lengi telja. Við Íslendingar erum stofnaðilar að nýjum samstarfssamningi IPGT ásamt Áströlum og Bandaríkjamönnum þar sem skipulagt verður nýtt þróunar- og rannsóknarátak í nýtingu jarðhita.
Ágætu starfsmenn
Ég hef nú stiklað á stóru í starfsemi stofnunarinnar og margt er auðvitað enn ósagt. Ég vil sérstakleg þakka ykkur gott samstarf á árinu og sérstaklega láta í ljósi ánægju mína með mikinn metnað, frumkvæði og sjálfstæði í starfi sem ég hef fundið hjá ykkur og gert þetta fyrsta ár mitt í starfi orkumálastjóra að ánægjulegri siglingu inn á ný höf. Þið hafið skilað góðu verki.