Fréttir


Eldsneytisspá 2008-2050 komin út

9.1.2009

Að undanförnu hefur á vegum orkuspárnefndar verið unnið að gerð nýrrar spár um eldsneytissölu og notkun hér á landi.

Forsendur og niðurstöður spárinnar er að finna í skýrslunni: "ELDSNEYTISSPÁ 2008-2050".

Orkuspárnefnd er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaðinum hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og Efnahagsskrifstofu Fjármálaráðuneytis. Nefndin hefur starfað síðan 1976 og gefið út 19 spár um einstaka orkugjafa. Þar af fjalla 6 um notkun eldsneytis, 7 um notkun raforku, 4 um húshitun og 2 um notkun jarðvarma. Skýrslur orkuspárnefndar eru gefnar út í nafni Orkustofnunar og hefur hún staðið undir öllum kostnaði við gerð annarra spáa en um raforku sem eru kostaðar að stofnuninni og Landsneti. Verkfræðistofan Efla vinnur að gerð spánna í umboði Orkustofnunar og orkuspárnefndar. Skýrslur nefndarinnar fást á bókasafni Orkustofnunar og á heimasíðu stofnunarinnar (www.os.is/orkuspa eða www.orkuspa.is).

Eldsneytisspáin hefur nú verið endurskoðuð frá grunni og er því nokkuð breytt frá síðustu spá nefndarinnar. Sú breyting hefur jafnframt orðið að í þessari spá er, auk jarðefnaeldsneytis, skoðuð hugsanleg þróun annarra orkugjafa. Ekki er skilgreint hvaða orkugjafa þar er um að ræða en þeir gætu t.d. verið raforka, jarðvarmi, metan, vetni og eldsneyti unnið úr lífmassa. Til grundvallar spánni eru lagðar forsendur um þróun mannfjölda, landsframleiðslu, sjávarfangs og flutninga innan lands og milli landa auk annarra þátta þar sem eldsneyti er notað. Ein af nýjungunum í þessari spá er sú, að áhrif verðbreytinga bensíns og dísilolíu á samgöngur voru skoðuð beint.

Í spánni er horft á alla sölu eldsneytis hér innanlands, bæði til innlendra og erlendra aðila, en ekki tekin með nein notkun íslenskra fyrirtækja þar sem olían er tekin erlendis. Notkuninni er skipt niður á innlenda notkun og millilandanotkun, og gildir þá einu hvort um íslenska eða erlenda aðila er að ræða. Þó var gerður greinarmunur á íslenskum og erlendum fiskiskipum. Tæplega 95% af olíunotkuninni er vegna samgangna og fiskveiða, þar sem olía er nær einráð, en búist er við að aðrir orkugjafar verði búnir að ná góðri fótfestu í þessum greinum við lok spátímabilsins.

Spáð er að notkunin hér innanlands muni aðeins minnka lítillega fram til 2020 en undir lok spátímabilsins fara nýir orkugjafar að auka verulega hlutdeild sína og notkun jarðefnaeldsneytis minnkar þá enn frekar. Gert er ráð fyrir verulegri aukningu í notkun jarðefnaeldsneytis vegna millilandasamgangna þegar frá líður og efnahagsástandið batnar. Við lok spátímabilsins er millilandanotkunin orðin meiri en innlenda notkunin.