Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til töku steypuefnis af hafsbotni í Álftafirði vegna jarðgangnagerðar í Óshlíð, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals

16.1.2009

Orkustofnun veitti steypustöðinni Árseli ehf. á Ísafirði leyfi til efnistöku af hafsbotni norðan við Hattareyri í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi þann 14. janúar 2009.

Leyfið er mjög afmarkað, því einungis er leyft að taka allt að 15.000 m3 af möl og sandi sem nota á í steypu vegna jarðgangnagerðar í Óshlíð, á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Leyfið er veitt til skamms tíma eða til 1. júlí 2009. Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunarinnar, Siglingastofnunar Íslands og Súðavíkurhrepps. Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal steypustöðin Ársel senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni í Álftafirði. Steypustöðinni ber einnig að skila kornastærðar- og berggreiningum á steypuefninu til Orkustofnunar fyrir lok leyfistímans.

Leyfið