Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til efnistöku af hafsbotni á tveimur svæðum í Kollafirði, við Lundey og á Viðeyjarflaki

19.2.2009

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á tveimur svæðum í Kollafirði, Faxaflóa þann 12. febrúar 2009.

Um er að ræða efnistökusvæði rétt sunnan og austsuðaustan Lundeyjar og á Viðeyjarflaki, nokkru norðan Viðeyjar. Leyft er að taka allt að 60.000 m3 af möl og sandi við Lundey og allt að 100.000 m3 á Viðeyjarflaki. Efnið verður notað í steypu og malbik á höfuðborgarsvæðinu. Leyfið er veitt til skamms tíma eða til 1. maí 2009. Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem lögbundins umsagnaraðila, auk Faxaflóahafna sf., lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Reykjavíkurborgar, Siglingastofnunar Íslands, umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal Björgun ehf. senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni í Kollafirði.