Fréttir


Forseti Íslands í Orkugarði

6.3.2009

Þann 4. mars 2009 kom forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson í heimsókn í Orkugarð.

Heimsóknin hófst á fundi með orkumálastjóra og forstjóra ÍSOR ásamt sérfræðingum frá þessum stofnunum þar sem farið var yfir stöðu Íslands á sviði orkumála erlendis í ljósi þeirrar djúpu efnahagskreppu sem nú ríkir. Í umræðunum kom fram að þrátt fyrir þessar þrengingar séu enn vaxandi tækifæri fyrir íslenska sérfræðiþekkingu og að mörg verkefni sem í gangi eru standi enn styrkum fótum.
frett_06032009

Af hálfu stofnananna var lögð áhersla á jákvætt framlag forsetaembættisins undanfarin ár til kynningar á íslenskri þekkingu á sviði orkumála og til þess að koma jarðhitanum að við mótun nýrrar orkustefnu. Þótt allar forsendur fyrir aðkomu íslenskra peningastofnana hafi breyst er enn ástæða til þess að halda merkinu hátt og stefna á frekari öflun verkefna þar sem þekking og reynsla íslenskra fræðimanna getur nýst. Í framhaldinu þarf síðan að huga að því hvernig mætti samhæfa krafta íslenskra fyrirtækja í kynningarstarfi og markaðsöflun. Það á einnig við um þekkingu okkar á byggingu og rekstri hitaveitna sem er vaxandi áhugi fyrir í heimunum þar sem ekki einungis jarðhiti heldur aðrir orkugjafar koma inn í myndina. Á fundinum var forsetanum einnig kynnt útboð Orkustofnunar á leitarleyfum fyrir olíu og gas á Drekasvæðinu og minntist hann af því tilefni fyrri afskifta sinna af samningamálum um rétt Íslands á þessu svæði.

Í erindi sínu á opnum fundi með starfsmönnum í Orkugarði fjallaði Ólafur Ragnar um þróun loftslagsmála og orkumála á alþjóðlegum vettvangi og þær öru breytingar sem orðið hafa á viðhorfi manna til þessara mála. Einnig hvernig jarðhitinn sem áður ekki komst á blað í áætlunum um orkumál nú hefur fengið stórkostlega aukið vægi bæði í iðnríkjum eins og Bandaríkjunum og þróunarlöndum eins og Indlandi og Indónesíu. Sérstaklega minntist hann þar á hlut Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hann lagði sérstaka áherslu á að nú töluðu menn ekki um eina lausn á sviði endurnýjanlegra orkugjafa heldur væri nú að ryðja sér til rúms kerfislæg hugsun þar sem menn gengju út frá því að nýta þyrfti alla mögulega endurnýjanlega orkugjafa í samstilltu orkukerfi. Að loknu erindi Ólafs Ragnars urðu síðan umræður þar sem starfsmenn spurðu nánar út í möguleika endurnýjanlegara orkugjafa í heiminum og einnig þýðingu þeirra fyrir framþróun í þriðja heiminum. Einnig komu fram sterkar ábendingar um að kynningar og eflingar almennrar umræðu á orkumálum og möguleikum okkar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa væri einnig þörf á innlendum vettvangi.

Heimsókninni lauk með að forsetinn leit við í Jarðhitaskólanum þar sem hann ræddi við nemendur og þeir sögðu frá námi sínu og verkefnum í heimalöndum sínum þar sem þekking þeirra kæmi að gagni. Sem svar við spurningu Ólafs Ragnars um hvað þeim fyndist þeir hafa sérstaklega lært af námi sínu og kynnum við Ísland komu fram atriði eins og skorpuvinna og greið samskipti milli þeirra mismunandi aðila sem kæmu að verkefnum og á það jafnt við um yfirmenn, undirmenn og fulltrúa stjórnsýslunnar.