Fréttir


Iðnaðarráðuneytið ríður á vaðið í orkusparnaði

11.3.2009

Nýlega var ákveðið að gera úttekt á lýsingu í iðnaðarráðuneytinu og hefur nú verið vottað að öll lýsing í húsnæði ráðuneytisins sé til fyrirmyndar.

Um 20% af raforkunotkun heimila fer til lýsingar. Með því að skipta út hefðbundnum glóperu fyrir sparperur má draga verulega úr raforkunotkun. Sparperur nota einungis brot þeirrar orku sem glóperur þurfa til að gefa sama ljósstyrk. Að auki endast sparperur allt að fimmtán sinnum lengur.

Lýsing í iðnaðarráðuneytinu vottuð

Nýlega var ákveðið að gera úttekt á lýsingu í iðnaðarráðuneytinu. Úttektin var gerð af Lýsingarsviði Jóhanns Ólafssonar & Co, umboðsaðila Osram á Ísland í samstarfi við Orkusetur iðnaðarráðuneytisins á Akureyri. Osram hefur nú vottað að öll lýsing í húsnæði ráðuneytisins sé til fyrirmyndar. Allar perur eru sparperur og umhverfisvænar.

Í kjölfar þeirrar úttektar sem fram fór í húsnæði iðnaðarráðuneytisins, stefnir Orkusetur á að taka út lýsingu í fleiri stofnunum ríkisins og koma með ábendingar um það sem betur má fara. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að leita allra leiða til að spara í ríkisrekstri og orkusparnaður getur þar verið lóð á vogarskálarnar.

Ný reiknivél

Til að hvetja neytendur til að skipta yfir í orkuminni lýsingu hefur Orkusetur birt aðgengilega reiknivél á netinu, þar sem hægt er að skoða með auðveldum hætti áhrif þess að skipta út glóperum í sparperur.

Ætla má að þessi reiknivél hvetji neytendur mjög til að skipta yfir í orkuminni lýsingu með tilheyrandi sparnaði.

Heimasíðan: http://www.orkusetur.is/perureiknir  

Skynsamlegur sparnaður