Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum í Hvalfirði, við Brekkuboða, Laufagrunn og Kiðafell

23.3.2009

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum í Hvalfirði þann 16. mars 2009.

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum í Hvalfirði þann 16. mars 2009. Um er að ræða efnistökusvæði allnokkru austnorðaustan við Brekkuboða, vestan og suðvestan við Laufagrunn og út af Kiðafelli í Kjós.

Leyft er að taka allt að 210.000 m3 af möl og sandi við Brekkuboða, allt að 60.000 m3 við Laufagrunn og allt að 65.000 m3 við Kiðafell. Efnið verður m.a. notað til fyllinga í þilskurði við Vogabakka í Sundahöfn í Reykjavík og hugsanlega til fyllinga undir hafnargarð við Helguvík í Reykjanesbæ. Leyfið er veitt til skamms tíma eða til 1. júní 2009.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem lögbundins umsagnaraðila, auk Faxaflóahafna sf., lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Hvalfjarðarsveitar, Kjósarhrepps, Reykjavíkurborgar (afgreitt af umhverfis- og samgöngusviði) og Siglingastofnunar Íslands.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal Björgun ehf. senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni í Hvalfirði.

Leyfið