Fréttir


Orkustofnun framlengir leyfi til efnistöku af hafsbotni við Lundey og á Viðeyjarflaki í Kollafirði til 1. júlí 2009

4.5.2009

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á tveimur svæðum í Kollafirði þann 12. febrúar 2009.

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á tveimur svæðum í Kollafirði þann 12. febrúar 2009. Um var að ræða efnistökusvæði rétt sunnan og austsuðaustan Lundeyjar og á Viðeyjarflaki, nokkru norðan Viðeyjar. Leyft var að taka allt að 60.000 m3 af möl og sandi við Lundey og allt að 100.000 m3 á Viðeyjarflaki. Efnið hefur verið notað í steypu og malbik á höfuðborgarsvæðinu. Leyfið var veitt til skamms tíma eða til 1. maí 2009.

Þann 30. apríl sl. framlengdi Orkustofnun framangreint leyfi til 1. júlí 2009. Þar sem Björgun ehf. hefur einungis nýtt lítinn hluta af því efnismagni sem leyft var að taka, taldi Orkustofnun ekki þörf á að auka við efnismagn í framlengingu leyfisins. Eina breytingin sem gerð var á leyfinu varðar gildistíma þess. Við undirbúning að framlengingu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem lögbundins umsagnaraðila. Við undirbúning að útgáfu leyfisins í febrúar sl., var auk Umhverfisstofnunar, leitað umsagnar Faxaflóahafna sf., lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Reykjavíkurborgar, Siglingastofnunar Íslands, umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal Björgun ehf. senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni í Kollafirði.