Fréttir


Útboði sérleyfa á Drekasvæðinu lokið

15.5.2009

Í dag, 15. maí 2009, kl. 16:00 rann út frestur til að sækja um sérleyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði. Orkustofnun bárust tvær umsóknir um sérleyfi á útboðstímabilinu.

Í dag, 15. maí 2009, kl. 16:00 rann út frestur til að sækja um sérleyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði í samræmi við ákvæði laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum, reglugerðar sama efnis, nr. 38/2009, og ákvæði tilskipunar 94/22/EB frá 30. maí 1994 um skilyrði fyrir veitingu og notkun leyfa til að leita að, rannsaka og vinna kolvatnsefni. Orkustofnun bárust tvær umsóknir um sérleyfi á útboðstímabilinu.

Umsóknir um sérleyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði verða opnuð á Orkustofnun, Grensásvegi 9, og nöfn fyrirtækjanna, ásamt númerum reitanna sem sótt var um, kunngjörð kl. 14:00, mánudaginn 18. maí nk. Opnunarathöfnin er opin almenningi.

Orkustofnun fagnar áhuga umsækjenda á útboðinu og þá sérstaklega í ljósi hinna sérstöku aðstæðna á Drekasvæðinu. Hér er um að ræða bæði kostnaðar- og áhættusamt langtímaverkefni fyrir væntanlega leyfishafa, en einnig er um mikinn ávinning að ræða, beri leitin árangur.

Þess má geta að til viðbótar við þessar umsóknir um sérleyfi skv. útboði barst Orkustofnun nýlega ein ný umsókn um leitarleyfi á Drekasvæðinu, en opið er fyrir slíkar umsóknir hvenær sem er. Má hafa þetta til marks um aukinn áhuga olíuleitarfélaga á þessu svæði.