Fréttir


ION GX Technology leitar að kolvetni á Drekasvæðinu

5.6.2009

Orkustofnun hefur í dag, að fengnum umsögnum frá umhverfisráðuneyti og sjávar- og landbúnaðarráðuneyti, veitt bandaríska fyrirtækinu ION GX Technology leyfi til leitar að kolvetni á norðanverðu Drekasvæðinu.

Leyfið gildir út árið 2009 og mun mæliskip fyrirtækisins gera hljóðbylgjumælingar á svæðinu á leyfistímabilinu m.a. með áherslu á að safna gögnum frá djúpum jarðlögum. Áhersla er lögð á það í leyfinu að fullt tillit sé tekið til fiskveiða á svæðinu við mælingarnar.

Leitarleyfi veitir ekki einkarétt til rannsókna né heldur rétt til vinnslu á olíu eða gasi í kjölfar rannsókna. Eftir að sérleyfi til rannsóknar og vinnslu hafa verið veitt þarf leitarleyfishafi að fá samþykki frá sérleyfishöfum og Orkustofnun til að safna gögnum innan sérleyfissvæða. Leitarfyrirtækið mun hafa gögnin til sölu. Orkustofnun fær öll gögn sem safnað er samkvæmt leitarleyfinu til varðveislu og getur notað þau í þágu þekkingaröflunar ríkisins um auðlindir, en gætir jafnframt trúnaðar um þau gagnvart öðrum.