Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum við Syðra-Hraun í sunnanverðum Faxaflóa; í Fláskarðskrika, við Sandhala og Ólastað

2.7.2009

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum við Syðra-Hraun í sunnanverðum Faxaflóa þann 29. júní 2009. Um er að ræða efnistökusvæði í Fláskarðskrika, sunnan Syðra-Hrauns, efnistökusvæði við Sandhala, austan og suðaustan Syðra-Hrauns og efnistökusvæði á Ólastað, austan Syðra-Hrauns.

Leyft er að taka allt að 1.500.000 m3 af möl og sandi í Fláskarðskrika, allt að 4.000.000 m3 við Sandhala og allt að 1.000.000 m3 á Ólastað, samtals 6.500.000 m3. Leyfið er sérleyfi og óheimilt er að veita öðrum leyfi til leitar eða efnistöku á sama svæði á gildistíma þess. Leyfið er veitt til 10 ára, eða til 1. júlí 2019.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, sem lögbundins umsagnaraðila, og Siglingastofnun Íslands.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal Björgun ehf. senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni á þessum þremur efnistökusvæðum við Syðra-Hraun í Faxaflóa.
Leyfið