Fréttir


Orkustofnun veitir Björgun leyfi til efnistöku af hafsbotni við Brekkuboða, Laufagrunn og Kiðafell í Hvalfirði fyrir tímabilið 2009-2019

25.8.2009

Orkustofnun veitti Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum í Hvalfirði þann 29. júlí 2009. Um var að ræða um 28 hektara efnistökusvæði allnokkru austnorðaustan við Brekkuboða, um 59 hektara efnistökusvæði vestan og suðvestan við Laufagrunn og um 122 hektara efnistökusvæði út af Kiðafelli í Kjós, samtals um 209 hektarar.

Leyft er að taka allt að 1.000.000 m3 af möl og sandi við Brekkuboða, allt að 2.950.000 m3 við Laufagrunn I og II og allt að 2.045.000 m3 við Kiðafell, samtals 5.995.000 m3. Efnistöku á svæðinu við Laufagrunn er skipt í tvo áfanga, og skal svæði I fullnýtt áður en hafin verður efnistaka á svæði II. Efnistöku á svæðinu við Kiðafell er einnig skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri skal efnistaka eingöngu fara fram innan núverandi gryfju og skal hún hefjast í suðvesturenda gryfjunnar og ljúka í norðausturenda hennar. Í síðari áfanga skal efnistaka við Kiðafell fara fram norðan og norðvestan við núverandi gryfju, þar sem nú er nær óraskað svæði.
Leyfið er sérleyfi og óheimilt er að veita öðrum leyfi til leitar eða efnistöku á sama svæði á gildistíma þess. Leyfið er veitt til 10 ára, eða til 1. ágúst 2019.
Við undirbúning að útgáfu leyfisins bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, sem lögbundins umsagnaraðila, auk Faxaflóahafna sf., lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Hvalfjarðarsveitar, Kjósarhrepps, Reykjavíkurborgar (afgreitt af umhverfis- og samgöngusviði) og Siglingastofnunar Íslands.
Björgun ehf. skal dýptarmæla hvert efnistökusvæði fyrir sig í lok gildistíma leyfisins. Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins og skal Björgun ehf. senda Orkustofnun yfirlit í lok hvers mánaðar yfir magn efnis sem dælt hefur verið upp af hafsbotni á þessum þremur efnistökusvæðum í Hvalfirði.

Leyfið