Fréttir


Orkustofnun veitir Groupe Roullier leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Miðfirði og Hrútafirði í Húnaflóa fyrir tímabilið 2009-2011

25.8.2009

Orkustofnun veitti franska fyrirtækinu Groupe Roullier leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Miðfirði og Hrútafirði í Húnaflóa þann 6. ágúst 2009.

Leitar- og rannsóknasvæðin þrjú eru í vestanverðum Miðfirði og austan- og vestanverðum Hrútafirði. Í leyfinu er einnig almennt ákvæði um að forðast skuli að fara nær ósum lax- og silungsveiðiáa en 2 km.

Í leyfinu felst heimild til að kortleggja jarðmyndanir á leitar- og rannsóknasvæðunum vegna leitar að kalkþörungaseti. Einnig felst í leyfinu heimild til að taka kjarna úr setinu og skal fjölda þeirra haldið í lágmarki.

Leyfið er ekki sérleyfi og takmarkar ekki rétt Orkustofnunar til að veita öðrum leyfi til leitar eða efnistöku á sama svæði á gildistíma leyfisins eða síðar. Leyfið felur ekki í sér fyrirheit fyrir Groupe Roullier um forgang að nýtingarleyfi á sama svæði. Leyfið er veitt til tveggja ára, eða til 15. ágúst 2011.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, sem lögbundins umsagnaraðila, auk lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Húnaþings vestra, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Landssambands veiðifélaga og Siglingastofnunar Íslands.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins. Áður en kjarnaboranir hefjast skal Groupe Roullier leita staðfestingar Orkustofnunar á áætlun um kjarnaboranir, þar sem fram koma upplýsingar um fjölda borana og staðsetningar þeirra. Groupe Roullier skal skila til Orkustofnunar áfangaskýrslu um niðurstöður leitar og rannsókna ársins 2009 eigi síðar en 31. desember 2009 og sams konar skýrslu vegna ársins 2010 eigi síðar en 31. desember 2010. Lokaskýrslu með leitar- og rannsóknaniðurstöðum fyrir leyfistímabilið 2009-2011 skal skila til Orkustofnunar eigi síðar en 31. desember 2011. Upplýsingar, sem varðveittar eru af Orkustofnun samkvæmt leyfinu, skulu vera undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma leyfisins og í 5 ár eftir að honum lýkur.

Leyfið