Fréttir


Orkustofnun veitir rannsóknarleyfi á vatnasviði Hólmsár í Skaftártungu

7.9.2009

Orkustofnun veitti Landsvirkjun og RARIK ohf. rannsóknarleyfi á vatnasviði Hólmsár í Skaftártungu þann 21. ágúst 2009. Rannsóknarleyfið er veitt til þriggja ára og gildir til 31. desember 2012.

Orkustofnun veitti Landsvirkjun og RARIK ohf. rannsóknarleyfi á vatnasviði Hólmsár í Skaftártungu þann 21. ágúst 2009. Rannsóknarleyfið er veitt til þriggja ára og gildir til 31. desember 2012.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar umhverfisráðuneytis í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1998. Einnig var leitað umsagnar landeigenda í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1998. Þá var einnig leitað umsagnar forsætisráðuneytis í samræmi við ákvæði laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

Leyfið tekur til rannsókna við að kanna hagkvæmni þess að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Hólmsá í Skaftártungu, svonefnda Hólmsárvirkjun. Takmarkast leyfið við þær framkvæmdir sem kveðið er á um í rannsóknaráætlun og eru á sviði vatnafræði og jarðfræði auk rannsókna í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Leiði framangreindar rannsóknir til þess að leyfishafi hafi hug á virkjun á rannsóknarsvæðinu er unnt að gefa út viðbótarleyfi varðandi rannsóknir er varða staðsetningu og fyrirkomulag mannvirkja og geta haft rask í för með sér. Leyfið felur ekki í sér heimild til nýtingar á vatnasviði rannsóknarsvæðisins.

Leyfið