Fréttir


Jólaerindi orkumálastjóra

29.12.2009

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, flutti árlegt jólaerindi sitt þann 16. desember sl.

Ágætu starfsmenn og gestir

Nú er rúmlega ár liðið frá hruni íslenska fjármálakerfisins. Á þessum tíma höfum við verið að færast úr ástandi mikillar óvissu yfir í ástand þar sem við þekkjum betur hvaða erfiðleika við er að glíma og viðfangsefni nánustu framtíðar eru að taka á sig skýrari útlínur, þó svo að sú mynd sem við blasir sé okkur ekki mjög að skapi. Kjör okkar og tekjumöguleikar rýrna, skattar og gjöld hækka, verðbólgan heldur sínu striki en verst er staða þeirra sem voru mjög skuldsettir vegna fasteignakaupa og annarra fjárfestinga þegar hrunið kom og þá ekki síst þeirra sem bundið höfðu lánin við erlenda gjaldmiðla. Það er hins vegar jákvætt í þessu fári að nú látum við okkur sem samfélag skipta örlög þeirra sem komnir eru í greiðsluþrot og standa frammi fyrir því að missa heimili sín. Fyrir hrun voru þetta líka örlög hundruða einstaklinga sem lentu í erfiðleikum vegna aðstæðna sem þeir ekki fengu ráðið, eins og atvinnumissis eða veikinda, en þá var eins og flestum væri sama. Það er eins og hrunið hafi að þessu leyti breytt gildismati okkar og viðmiðunum þannig að í stað óheftrar peningahyggju komi virðing fyrir einstaklingnum og örlögum hans. Hagfræðingar kenna okkur að í kreppu rýrni virði eigna og vinnuframlags að því marki að nýr verðmætagrunnur skapist sem skapi forsendur fyrir ný tækifæri í fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífsins. Það er sjálfsagt mikið til í því en við erum þó sennilega okkar eigin gæfu smiðir í því hve mikil rýrnun verðmæta verður, þ.e. hve djúp kreppan verður og hversu hratt okkur tekst að vinna okkur upp úr henni. Sérstaklega á þetta við um Ísland þar sem markaður er lítill og atvinnutækifærin eru fábreytt. Mörg tækifæra okkar tengjast líka auðlindum okkar og aðgengi að þeim. Vel menntaður mannafli, fiskurinn í sjónum, einstök náttúra, orkuauðlindir í jörð og fallvötnum og landrými til atvinnustarfsemi, ræktunar og beitar eru með skynsamlegri nýtingu undirstaða að traustu atvinnulífi sem í heild hefur sýnt sig þola alþjóðlega samkeppni og standast verulega ágjöf á erfiðleikatímum. Á þessum tímum sem við nú lifum er mikilvægt að missa ekki sjónar á aðalatriðunum og lokast inni í endalausu karpi um aukaatriði þegar við leggjum á ráðin um nýtingu og aðgengi að þessum auðlindum.

Orkustofnun hefur umsjón með nýtingu vatnsafls og jarðvarma, ferskvatni, efnistöku á hafsbotni og hugsanlegum kolvetnum, þ.e. vinnslu á olíu og gasi innan íslenskrar efnahagslögsögu. Nýting allra þessara auðlinda hefur í för með sér rask á ósnortinni náttúru, nýtingu lands og vatnasvæða og í mismunandi mæli áhrif á umhverfi, náttúrulega, efnahagslega og félagslega þróun. Það er verkefni Orkustofnunar að, í samstarfi við aðrar stofnanir þjóðfélagsins, annast stjórnsýslu á þessum sviðum þannig að aðkoma mismunandi sjónarmiða sé tryggð og að nýting þeirra geti verið hluti af sjálfbærri samfélagsþróun. Í þvífelst m.e. að nýting okkar á landsins gæðum skerði ekki möguleika komandi kynslóða til þess njóta sömu eða sambærilegra gæða. Komandi kynslóðir er náttúrulega teygjanlegt hugtak. Hvað er átt við; 100 ár, 1000 ár eða eilífðina? Það getur verið hjálp í því að skoða orkubúskap okkar í sögulegu ljósi. Þegar landnámsmenn komu hér var landið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Eldsneyti til hitunar og kolagerðar var sótt í skóginn sem vegna þessa sem og beitar eyddist hratt. Með öllum fyrirvörum um áhrif breytinga á loftslagi sem urðu þessu samfara þá má fullyrða að hér hafi ekki verið um sjálfbæra nýtingu að ræða. Á miðöldum varð eldsneyti mjög af skornum skammti vegna eyðingar skóganna. Þær kynslóðir sem þá voru uppi voru sviptar möguleikum til þess að leysa upphitun sína með sama hætti og landnámsmenn. Þá tóku menn til annarra ráða eins og að þurrka skítinn úr húsdýrunum og grafa eftir því náttúrulega lagmeti úr jurtaríkinu sem safnast fyrir og varðveitist í mýrarjarðvegi og kallast mór. Þetta gerðist með það sjálfbærum hætti að þegar íslenskir bændur hættu þessari iðju á fyrri helmingi 20. aldar var það ekki vegna þess að allur mór væri upp urinn, fjarri því, heldur vegna þess að kolin leystu móinn af hólmi.

Ný orkustefna

Iðnaðarráðherra hefur nýlega sett á stofn nefnd til þess að setja fram stefnu um nýtingu orkunnar. Þetta vekur óneitanlega þá spurningu hver sé og hver eigi að vera stefna okkar i orkumálum. Það má greina helstu álitaefni hér í fimm meginþætti.
Orkunotendur
Við viljum gjarnan geta haft skoðun á því hvernig væntanlegir kaupendur orkunnar eru innréttaðir. Menn tala gjarnan um að óheppilegt sé að byggja fleiri álver og leggja öll egg í sömu körfu og einnig er uppi það sjónarmið að minni, fleiri og fjölbreyttari orkunýtingarkostir gætu verið af hinu góða. Einnig vilja sumir draga taum þeirra kosta sem skapa fleiri störf á hverja orkueiningu og leggja þannig grunninn að stöðugri vinnumarkaði. Eins er uppi það sjónarmið í hinum dreifðu byggðum landsins að orkuna eigi fyrst og fremst að nýta heima í héraði. Þegar hins vegar það ferli sem liggur að baki stærri virkjunum og stóriðju er skoðað þá er eðlilegt að menn spyrji sig hvar í stjórnkerfinu hægt sé að koma fyrir flokkunarvélum sem forgangsraði mismunandi væntanlegum notendum eftir þessum sjónarmiðum. Þá hefur því verið haldið fram að með núverandi skipan mála sé erfitt nema fyrir stóra áfanga með fyrirfram ákveðið framleiðslumagn að komast í gegnum flokkunarvélarnar. Það er áhugavert að nú hafa mál þróast þannig að áður störfuðu ýmsir aðilar að því að laða hingað fjárfesta, sem jafnframt væru stórnotendur að raforku, með afar takmörkuðum árangri. Nú virðist umhverfið hafa breyst þannig að það er eins og tómatsósuflaskan hafi hlaupið og allmargir minni og stærri notendur lýsa áhuga sínum á því að setja upp orkufrekan iðnað hvort sem það eru álver, netþjónabú eða sólarkísilverksmiðjur.

Orkuframleiðsla - orkusala

Sjónarmið orkuframleiðandans hlýtur að vera fyrst og fremst að ná sem hagstæðustum samningum um stóra áfanga til langs tíma þannig að fjármögnun virkjanna sé tryggð meðan verið er að afskrifa fjárfestingarkostnaðinn. Í núverandi skipulagi má segja að stærri virkjanaáfangar séu ekki byggðir nema í náinni samvinnu við væntanlega notendur, þ.e. að sala orkunnar er tryggð áður en fjárfestingar í nýjum orkumannvirkjum fara á skrið. Nýir orkukaupendur, sem eru smærri í sniðum og þurfa að reikna með breytilegu framleiðslumagni á starfstímanum, hafa einfaldlega ekki burði til þess að tryggja orkuframleiðendum sama öryggi. Það er ekki auðvelt að benda á leiðir til þess að skapa almennar reglur sem beina orkusölusamningum til fleiri og minni notenda. Hugsanlegt væri að taka mið af samkeppnislögum þannig að hverjum orkusala verði gert að dreifa orkusölu sinni á óskylda notendur með ákveðnum hætti.

Auðlindin og verðmæti hennar

Nú vill svo til að orkuauðlindirnar eru að mestu í eigu opinberra aðila. Að verulegum hluta hefur raforkuframleiðslan líka verið í opinberri eigu þannig að menn hafa farið sér hægt með að taka eðlilegt afgjald fyrir notkun auðlindarinnar. Langtímaleiga Reykjanesbæjar á auðlindaréttindum sínum til einkafyrirtækis vakti umræðu um það hvert væri eðlilegt afgjald af auðlindinni. Sú viðleitni sem við höfum haft til þess að reyna að byggja upp samkeppnisumhverfi í raforkuiðnaði hlýtur að leiða til þess að við reynum að skapa jafnræði milli orkufyrirtækja hvað varðar aðgang að orkulindum í þjóðareign. Orkumálastjóri Texasfylkis í Bandaríkjunum, sem við sóttum heim á dögunum, lýsti því hvernig gjald af auðlindinni væri fundið þar. Í stórum dráttum er það þannig að auðlindagjaldið er ákveðið fyrirfram 1.0 - 3.5 % af brúttó sölu þannig að það er lægst þegar vinnsla hefst og fer síðan stighækkandi með árunum eftir því sem reikna má með að skuldabyrðin minnki. Orkufyrirtæki sem fær augastað á svæði til vinnslu tilkynnir það til orkustofnunar fylkisins sem undirbýr opið útboð á svæðinu. Bjóðendur keppa síðan sín á milli með því að leggja fram eingreiðslu sem kemur til viðbótar auðlindagjaldinu. Leigusamningurinn er til 30 ára en fellur úr gildi ef vinnslu er hætt. Miðað við núverandi aðstæður telja þeir líklegt að samningurinn framlengist ef vinnsla er í gangi með eðlilegum hætti. Það ber að hafa í huga að hér er um að ræða jarðhitasvæði með lægra hitastig og þar með dýrari orkuvinnslu en venjuleg háhitasvæði á Íslandi þannig að verðmæti auðlindarinnar gæti orðið hærra hér.

Efnahagsleg og félagsleg áhrif

Menn greinir á um það hvort við erum að tapa eða græða á virkjanaframkvæmdum og tengdri stóriðju. Hvað varðar beina afkomu orkufyrirtækjanna þá verður að horfa til þess að raforkusala til almennra neytenda er nú einungis fimmtungur af heildar raforkusölu. Samfellt tap af raforkusölu til stóriðju sem velt væri yfir á almenna notendur hefði þannig í för með sér stórkostlegar hækkanir á raforkuverði með vaxandi hlut stóriðjunnar. Hin leiðin til þess að jafna samfellt tap væri með skuldasöfnun. Í lok árs 2008 var afl virkjana Landsvirkjunar um 1860 MW og langtímaskuldir 2975 MUSD eða 1.6 MUSD á MW ,kostnaður fyrir hvert nýtt MW er talinn vera um 2.5 MUSD og rekstrarhagnaður án afskrifta eða EBITDA var 11.8 %. Eignamyndun er þannig jákvæð og rekstrarafkoman einnig. Langtímaskuldir eru að verulegum hluta í erlendri mynt og þótt það hafi reynst íslenskum húseigendum erfitt þá ber að líta til þess að tekjur af orkusölu til stóriðjunnar eru einnig í erlendri mynt. Í kjölfar bankahrunsins hefur hins vegar traust erlendra lánveitenda gagnvart íslenskum aðilum almennt versnað. Þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á möguleikana til endurfjármögnunar og lánskjör hafa versnað. Ef þetta ástand stendur lengi getur orðið erfitt að fá fjármagn til nýrra framkvæmda og til að endurfjármagna eldri lán líkt og kom fram á ársfundi Orkustofnunar fyrr á árinu.
Því hefur verið haldið fram að virkjanir og stóriðja sogi til sín fjármagn sem annars færi til að byggja upp smærri og fleiri fyrirtæki sem sköpuðu fleirum atvinnu. Svo allrar sanngirni sé gætt þá ber hér að taka tillit til þess að störf sem skapast í virkjunum og orkufrekum iðnaði hafa sennilega lengri líftíma en störf sem skapast á almennum markaði. Það er hins vegar verðugt rannsóknarefni að kanna að hve miklu leyti ofangreind fullyrðing á við rök að styðjast. Við höfum eftir Búrfell haft stóra virkjanaáfanga en líka tímabil þar sem lítið hefur gerst í virkjanamálum. Eru til dæmi um lánveitendur sem velta peningum á milli handa sér og velja milli þess að fjármagna álver eða þúsund sprotafyrirtæki? Það hefur einnig verið nefnt til sögunnar að ruðningsáhrif stórra framkvæmda skapi þenslu og skort á vinnuafli sem hamli fyrirtækjum á almennum markaði að þróast og vaxa með eðlilegum hætti. Það má benda á slíkar aðstæður frá síðastliðnum áratug þótt menn greini á um ástæður þenslunnar, en á þetta sjónarmið jafnt við í góðæri og í þeirri efnahagslægð sem við nú göngum í gegnum?

Hnattræn og landræn umhverfisáhrif

Það kom berlega í ljós þegar nóbelsverðlaunahafinn Dr. Rajendra Kumar Pachauri, var hér á ferð í haust að við Íslendingar höfum tvö mismunandi sjónarhorn þegar við metum áhrif mannvirkja og iðnaðar á umhverfi. Annars vegar hið hnattræna þar sem heildar losun mengunar og gróðurhúsalofttegunda er talin hafa skaðleg áhrif á lofthjúp jarðar og hins vegar hið landræna þar sem náttúrufyrirbrigði, einstaka jarðfræðilegar myndanir og tilkomumiklar sjónvíddir geta spillst vegna mannvirkjagerðar. Með því að framleiða hreina orku og með því að vera öðrum þjóðum hvatning og fyrirmynd við nýtingu jarðvarma og vatnsorku til raforkuvinnslu getum við lagt mikið af mörkum til þess að færa orkuvinnslu og framleiðsluferli frá því að nýta jarðefnaeldsneyti yfir á hreina orkugjafa. Að halda því fram að framlag okkar í þeim efnum skipti ekki máli er þvert á allan veruleika. Við sjáum nú hvernig álverum er lokað í Noregi þar sem þau hafa nýtt vatnsorku en ný álver eru gangsett í Qadar og Alsír sem nota jarðgas sem orkugjafa með margfaldri kolefnislosun á hvert tonn af áli miðað við álver á Íslandi. Okkur greinir flest ekki á um að viss landsvæði á Íslandi eigi að njóta skilyrðislausrar verndar, ekki bara fyrir orkuframkvæmdum heldur einnig t.d. fyrir ágengri ferðamennsku og almennt vondri umgengni. Hlutverk Rammaáætlunar er að raða mismunandi virkjunarkostum eftir nýtingar- og verndargildi þeirra og skapa þannig grundvöll að lýðræðislegri ákvörðun um það hvar eigi að draga mörkin milli nýtingar og verndar. Þá erum við komin að vandamáli sem við þekkjum vel í starfi okkar hér á Orkustofnun. Við nýtingu náttúruauðlindanna er ekki hægt að gangast alfarið undir sjónarmið verndar. Það myndi setja okkur aftur á steinaldarstig. Í hugtakinu sjálfbær þróun felst að jafnframt því sem við stöndum vörð um náttúruna þá er hlutverk okkar líka að skapa afkomendum okkar efnahagslegt og félagslegt umhverfi og forsendur til þess að njóta sambærilegra lífskjara og þeirra sem við njótum. Þarna þarf stöðugt að leita jafnvægis og þetta jafnvægi getur breyst með nýjum viðhorfum og nýrri þekkingu.

Olíuleitarmálin

Olíuleit á Drekasvæðinu hefur verið mjög til umræðu á þessu ári. Með fyrsta útboði okkar á leyfum til leitar og vinnslu var brotið blað og þessum kosti komið á dagskrá hjá fyrirtækjum í greininni. Árangur okkar var góður að því leyti að nokkur fyrirtæki sóttu gögn og hófu umfangsmikla greiningarvinnu og tveimur umsóknum um leyfi var skilað inn. Þetta gátu talist jákvæðar niðurstöður í ljósi þess að olíuverð hélst lágt á árinu um leið og alþjóðleg kreppa ríkti á fjármálamörkuðum. Það urðu okkur samt sem áður mikil vonbrigði þegar báðir umsækjendur tóku ákvörðun um að draga umsóknir sínar til baka á haustdögum. Við höfðum ávallt gert okkur grein fyrir því að hér er um langhlaup að ræða og reynsla annara þjóða sem hafa staðið í sömu sporum og við, eins og t.d. Grænlendinga, er að áhugi olíuvinnslufyrirtækja minnkar og vex á víxl eftir því sem forsendur breytast. Við erum nú að vinna úr þeirri reynslu sem hefur skapast með þessu fyrsta útboði. Megin verkefnið nú er að hafa samband við fyrirtæki sem sendu inn tilboð, fyrirtæki sem fóru í umfangsmikla greiningarvinnu en sendu ekki inn tilboð og fyrirtæki sem ekki komu að útboðinu og kanna viðhorf þeirra og ástæður fyrir sínum ákvörðunum. Það er skemmst frá því að segja að fyrirtækin hafa tekið okkur mjög vel og rætt við okkur á hreinskiptinn hátt um hvernig þeir hafa greint svæðið og möguleika þess. Hjá félögunum eru yfirleitt starfandi sérstakar deildir sem fjalla um nýja leitarkosti og þessar deildir virðast hafa þá stefnu að hafa mikil og opin samskipti við þá aðila sem stefna að því að opna ný svæði. Í heimsókn okkar Þórarins Sveins Arnarsonar til Texas á dögunum fengum við gott samband við breiðan hóp fólks sem kemur að þessum málum eins og t.d. olíufyrirtæki, lögfræðistofur, fjárfesta, leitarfyrirtæki, olíujarðfræðinga og þá sem sjá um stjórnsýslu á þessu sviði. Allar þessar upplýsingar þurfum við nú að meta og taka afstöðu til þess hvaða áhrif þær geta haft á framhaldið. Það hafa t.d. komið fram sjónarmið um æskileg jarðfræðileg viðbótargögn og hugmyndir um leiðir til þess að afla þeirra með sem minnstum tilkostnaði.

Starfsemin

Starfsemi okkar á árinu hefur verið í nokkuð föstum skorðum. Kröfum um aðhald og sparnað hefur að mestu verið mætt með því að fara ekki í nýráðningar í stað þeirra sem hafa hætt og þeirra sem eru að minnka við sig störf, með því að draga úr útgjöldum og með leiðréttingu á hæstu launum með sama hætti og gert hefur verið hjá ráðuneytum. Hins vegar er það svo að með þeirri áherslu sem nú er á orkumálin sem aflvél í nýjum fjárfestingum og endurreisn efnahagslífsins þá höfum við brýnu hlutverki að gegna við að tryggja örugga og skilvirka stjórnsýslu við undirbúning og ákvörðun um nýjar virkjanir og að rækja eftirlitshlutverk okkar innan orkugeirans. Sparnaður okkar má ekki koma niður á þessum þáttum. Á árinu höfum við haldið áfram að byggja upp stjórnsýsluhlutverk Orkustofnunar sem jókst verulega eftir að leyfisveitingar fluttust frá iðnaðarráðuneytinu til okkar í ágúst 2008. Markmið okkar er að halda sett tímamörk án þess að slaka á kröfum sem við og aðrir gera til okkar um að við sinnum rannsóknarskyldu okkar og öflum álits og umsagna frá mismunandi aðilum. Við erum í raun enn að vinna okkur út úr aðskilnaðinum frá Ísor og Vatnamælingum. Flækjustigið verður all nokkuð vegna þes að við deilum ennþá húsi, aðstöðu og þjónustu og þurfum að finna okkur nýjan samstarfsgrundvöll. Á Akureyri hefur aðstoð við orkusparnað hjá raforkunotendum á köldum svæðum komist á gott skrið og það styrktarkerfi sem hefur verið þróað fyrir þá sem vilja setja inn varmadælur hefur vakið mikla athygli þeirra sem hafa verið að leita sér að varanlegri lausnum til þess að lækka hitunarkostnað. Við höfum einnig ásamt Nýsköpunarmiðstöð, Mitsubishi og fleirum tekið þátt í mati á nýjum iðnaðarkosti þar sem fljótandi eldsneyti DME er framleitt úr koltvísýringsútblæstri frá verksmiðju og vetni sem framleitt er með rafgreiningu. Á vegum Orkuseturs er unnið að orkusparnaði í akstri og samgöngum og þróaðar handhægar reiknivélar á netinu fyrir þá sem vilja leita bestu leiða til þess að minnka aksturskostnað og um leið minnka útblástur og álag á umhverfið. Margir starfsmenn hafa komið að lokasprettinum í Rammaáætlun og lagt sitt af mörkum til þess að hægt sé að ljúka því verki sómasamlega. Vinnu við að koma gögnum stofnunarinnar á rafrænt form og frágang og aðgengi þeirra rafrænu gagna sem við berum ábyrgð á hefur skilað vel áfram á árinu.
Ríkisstjórn Íslands vinnur nú að því að sameina ráðuneyti iðnaðar, orku- og ferðamála og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í eitt atvinnumálaráðuneyti og samtímis huga að tilfærslu þeirra verkefna undirstofnana þeirra sem tilheyra umhverfis- og auðlindamálum undir ráðuneyti umhverfis og auðlindamála. Megin hluti starfsemi okkar tengist stjórnsýslu við nýtingu auðlinda og það má ætla að þau verkefni muni eiga heima í ráðuneyti atvinnumála. Rannsóknir á auðlindum hafa að mestu fylgt Vatnamælingum og Ísor við aðskilnaðinn. Við höfum umsjón með fjármagni til rannsókna sem mest tengjast auðlindanýtingu en menn vilja sjálfsagt ræða hvort einhver hluti þess gæti talist varða almennar rannsóknir á auðlindum. Forræði næsta áfanga Rammaáætlunar mun að öllum líkindum færast yfir til umhverfisráðuneytis. Þá er einnig vert að geta þess að við ráðum yfir einstöku bókasafni og gagnasafni á sviði jarðvísinda sem spannar yfir auðlindir og auðlindanýtingu sem og almennan náttúrufræðilegan fróðleik. Við getum líka litið á þessar viðræður sem tækifæri til þess að fara yfir samskiptin milli stjórnsýslu á sviði auðlinda og umhverfismála og stjórnsýslu okkar sem snýr að nýtingu auðlindanna.

Þangskurður

Það er notalegt að vakna á sunnudagsmorgnum og hlusta á gamlar upptökur með Jökli heitnum Jakobssyni þar sem hann lætur kunnuga leiða sig um heimaslóðir sínar í þættinum Gatan mín. Um daginn þegar hann átti stefnumót við Tómas Þorvaldsson í Grindavík þá sperrti ég eyrun þegar ég heyrði Tómas segja frá því að fátækt fólk hefði safnað þangi til eldunar og hitunar. Þetta hafði ég aldrei heyrt getið um. Þegar við hjónin heimsóttum átthagasafn á austurströnd Nova Scotia fyrir nokkrum árum rakst ég þar á einangrunarmottur sem voru gerðar úr samansaumuðum þarablöðkum. Ég stóð í þeirri trú að þetta byggði á því að þari brynni illa og því komu þessar upplýsingar um eldsneytismál þeirra Grindvíkinga flatt uppá mig. Til þess að svala forvitni minni bað ég Rósu á bókasfninu að finna það sem til væri skrifað um þetta. Árni Óla getur þess í grein í Lesbók Morgunblaðsins 1965 um mótöku og mómýrar að „Í byggðunum suður með sjó sóttu menn eldsneyti sitt í sjóinn. Aðallega var það þang og þari og það þótti ómetanlegur kostur á jörðum ef þar var góður þangskurður í fjörum. Á stórum heimilum voru oft sóttir 400-500 hestburðir af blautu þangi og úr þessu urðu um 100 – 125 hestburðir af þurru þangi.“ Gísli Sigurðsson lögreglumaður segir frá því í Lesbókinni 1970 að í eldhúsinu í Rafnsbúð í Grindavík hafi verið eldiviður, „aðallega þang og þari, sem sóttur var í fjöruna neðan við túnið. Lagði af eldivið þessum sérkennilegan höfgan þef um bæinn.“ Í fyrsta bindi af Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson má svo finna nákvæma lýsingu á þangskurði og þeim verkfærum sem notuð voru við verkið. Það er athyglisvert að þangið var breitt á hóla og saltið látið rigna úr því áður en það var þurrkað þannig að það brynni betur. Þetta var ódrjúgt eldsneyti en hitamikið því það fuðraði fljótt upp og ef einhvers konar bóluþang var brennt brann það með smellum líkt og poppkorn. Lúðvík telur að fjörugróður hafi verið nýttur sem eldsneyti víða um land en þó mest við sjávarsíðuna í Árnessýslu, í Vestmannaeyjum á Reykjanesi öllu og víða á innnesjum við Faxaflóa. Hann telur reyndar að á þessum slóðum hafi ekki verið annar eldiviður til taks og því hafi þetta verið forsenda þess að þessi svæði héldust í byggð.
Þetta vekur náttúrulega ýmsar spurningar. Það er erfitt að ímynda sér að landnámsmenn hafi haft fyrirmyndir að þangbrennslu komandi frá skógi vöxnu landi og því hljóti menn með einhverju móti að hafa dottið niður á þessa lausn þegar fór að sneiðast um eldivið á miðöldum. Það væri áhugavert að vita meira um sögu þessa eldsneytis á Íslandi og eins væri gaman að vita meira um eiginleika eins og t.d. orkuinnihald og aðra eðlisþætti. Væri e.t.v hægt að pressa arinkubba úr íslensku þangi? Í öllu falli er þetta lýsandi dæmi um hæfileika mannskepnunnar til þess að aðlagast nýjum aðstæðum og vera sífellt að leita lausna til þess að afla sér lífsviðurværis og orku til hitunar og matargerðar.

Ágætu starfsmenn

Nú líða þessir dagar aðventunnar hratt. Við búum okkur undir að njóta jólahelgarinnar með fjölskyldu og vinum. Þetta fyrsta ár kreppunnar miklu er senn á enda. Ljós og hiti fylla híbýli landsmanna og við reynum áfram saman að leggja okkar af mörkum þannig að svo megi verða um ókomna tíð. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og vaxandi gæfu á nýju ári.