Fréttir


Fyrirhuguð gjaldskrárhækkun Orkuveitu Reykjavikur.

31.8.2010

Af gefnu tilefni, vegna umræðna um fyrirhugaða gjaldskrárhækkun Orkuveitu Reykjavíkur, vill Orkstofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 er Orkustofnun falið að hafa eftirlit með dreifiveitum rafmagns. Í því felst m.a. að hafa eftirlit með rekstri dreifiveitnanna svo og fjárhag þeirra ásamt því að setja þeim tekjumörk, í samræmi við ítarleg ákvæði í 17. gr. raforkulaga. Tekjumörk eru hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði við starfsemi sína og til að skila eigendum sínum viðeigandi arði. Þau eru sett til þriggja ára í senn, en taka ýmsum breytingum á tímabilinu þegar forsendur breytast, svo sem vegna verðlagsbreytinga, nýrra eigna, hækkunar eða lækkunar vaxta o.fl. þátta. Tekjumörkin eru síðan gerð upp að tímabilinu loknu og það sem upp á vantar eða oftekið var fært til næsta árs.

Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
  1. Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.
  2. Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs kerfisins. Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri veitunnar skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Orkustofnun hefur skýrt ákvæði þetta á þá vegu að þar sé komið í veg fyrir að of lág gjaldskrá dreifiveitu leiði til lakara afhendingaröryggis og annarrar skerðingar á þjónustu hennar við notendur eða stofni rekstrarumhverfi grunnþjónustufyrirtækja í hættu. Sama á við komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun sem að mati  Orkustofnunar  komi í veg fyrir of háa gjaldskrá dreifiveitu.
  3. Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.

Samkvæmt 17. gr. raforkulaga og 24. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, skal dreifiveita setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk. Nánar er kveðið á um einstaka þætti gjaldskrár í 24. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga.

Tveimur mánuðum áður en gjaldskrá á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði raforkulaga eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við dreifiveitu innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveitur skulu birta gjaldskrár opinberlega og upplýsa viðskiptavini um eftirlitshlutverk Orkustofnunar.

Það skal ítrekað að dreifiveita skal í bókhaldi sínu halda reikningum vegna dreifingar raforku, þ.m.t. kostnaði vegna kerfisstjórnunar, aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi. Vinnslufyrirtæki er þó heimilt að stunda sérleyfisstarfsemi en óheimilt er því að niðurgreiða vinnsluna með sérleyfisstarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Vinnslufyrirtæki skulu í bókhaldi sínu halda reikningum fyrir vinnslustarfsemi aðskildum frá annarri starfsemi. Samkeppniseftirlitið fylgist með vinnslufyrirtækjum og söluaðilum raforku líkt og öðrum fyrirtækjum á frjálsum markaði. Starfræki vinnslufyrirtæki jarðvarmaorkuver sem bæði vinnur raforku og aðra orku, svo sem heitt vatn eða gufu, skal fyrirtækið í bókhaldi sínu halda reikningum vegna vinnslu raforku aðskildum frá reikningum vegna annarrar vinnslu.

Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt fram tillögur að hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins fyrir dreifingu raforku og eru þær í afgreiðslu hjá Orkustofnun.