Orkustofnun veitir Íslenska kalkþörungafélaginu leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði fyrir tímabilið 2010-2012.
Orkustofnun veitti Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði þann 8. febrúar 2010.
Orkustofnun veitti Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði þann 8. febrúar 2010.
Afmörkun svæða. Leitar- og rannsóknasvæðið í Dýrafirði nær frá ystu annesjum (lína dregin frá Kögri sunnan fjarðar að Skagatöngum norðan fjarðar) og inn í botn fjarðarins. Leitar- og rannsóknasvæðið í Tálknafirði og Patreksfirði nær einnig frá ystu annesjum (lína dregin frá Blakknesi sunnan Patreksfjarðar að Kópavík norðan Tálknafjarðar) og inn í botn fjarðanna. Leit og rannsóknir fara í öllum tilfellum fram utan netlaga.
Rannsóknir. Í leyfinu felst heimild til að kortleggja jarðmyndanir í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði vegna leitar að kalkþörungaseti. Einnig felst í leyfinu heimild til að taka kjarna úr setinu og skal fjölda þeirra haldið í lágmarki.
Vernd svæða. Í leyfinu er kveðið á um, að ákvæði VI. kafla laga um náttúruvernd gildi eftir því sem við á. Gera skal allar nauðsynlegar ráðstafanir til að forðast spillingu á lífríki láðs og lagar og skal þess sérstaklega gætt að olía og önnur spilliefni fari ekki í sjó. Öll óviðkomandi umferð og röskun er bönnuð í friðlýstu æðarvarpi, svo og óþarfa hávaði af völdum manna og véla, nema með leyfi varpeiganda. Bent er á, að æðarvarp sé á allnokkrum jörðum í Dýrafirði og á Sveinseyri í Tálknafirði. Gæta skal þess að raska ekki sérstökum eða sjaldgæfum jarðmyndunum á svæðunum. Sýna skal sérstaka aðgát við kjarnaboranir skv. leyfinu með hliðsjón af fornleifum á hafsbotni. Einnig skal forðast að fara nær ósum lax- og silungsveiðiáa en 1,5 km.
Beiðni um forgang til nýtingar. Leyfið er ekki sérleyfi og takmarkar ekki rétt Orkustofnunar til að veita öðrum leyfi til leitar eða efnistöku á sama svæði á gildistíma leyfisins eða síðar. Leyfið felur ekki í sér fyrirheit fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. um forgang að nýtingarleyfi á sama svæði. Leyfið er veitt til tveggja ára, eða frá 1. apríl 2010 til 31. mars 2012.
Umsagnir. Við undirbúning að útgáfu leyfisins bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, sem lögbundins umsagnaraðila, auk lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Siglingastofnunar Íslands, Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.
Eftirlit og skil gagna. Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd leyfisins. Að loknum endurvarpsmælingum og áður en kjarnaboranir hefjast skal Íslenska kalkþörungafélagið ehf. skila inn til Orkustofnunar frumniðurstöðum endurvarpsmælinga og leita staðfestingar stofnunarinnar á áætlun um kjarnaboranir, þar sem fram koma upplýsingar um fjölda borana og staðsetningar þeirra. Einnig skal fyrirtækið áður en kjaranboranir hefjast, leita staðfestingar Orkustofnunar á því að engin skipsflök, hlutar úr þeim eða aðrar fornleifar finnist á borunarstöðum, eftir athugun Fornleifaverndar ríkisins. Íslenska kalkþörungafélagið ehf. skal skila til Orkustofnunar áfangaskýrslu um niðurstöður leitar og rannsókna ársins 2010 eigi síðar en 31. mars 2011 og sams konar skýrslu vegna ársins 2011 eigi síðar en 31. mars 2012. Lokaskýrslu með leitar- og rannsóknaniðurstöðum fyrir leyfistímabilið 2010-2012 skal skila til Orkustofnunar eigi síðar en 15. ágúst 2012. Upplýsingar, sem varðveittar eru af Orkustofnun samkvæmt leyfinu, skulu vera undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma leyfisins og í 5 ár eftir að honum lýkur.
Leyfisbréf
Leyfi og umsókn
Umsagnir