Fréttir


Áhættustýring í íslenskum orkufyrirtækjum

8.2.2010

Helena Sigurðardóttir heldur fyrirlestur föstudaginn 12. febrúar kl. 13:00. í Orkugarði.

Helena Sigurðardóttir heldur fyrirlestur föstudaginn 12. febrúar kl. 13:00. í Orkugarði um áhættustýringu í íslenskum orkufyrirtækjum.

Sumarið 2009 var könnun lögð fyrir íslensk orkufyrirtæki til að kanna og kortleggja hvernig orkufyrirtæki á Íslandi fást við áhættuþætti í sínum rekstri. Skoðaðir voru innri og ytri þættir sem geta haft áhrif á árangur í verkefnum og ferlum fyrirtækjanna s.s. varðandi umhverfi, mannauð, lagaumhverfi og þess háttar. Niðurstaðan sýndi að áhættustýring innan íslenskra orkufyrirtækja virðist víða vera skammt á veg komin þótt einstaka fyrirtæki hafi langa reynslu. Sum fyrirtækin eru að stíga sín fyrstu spor og önnur hafa enn ekki áttað sig á möguleikum áhættustýringar.

Á kynningunni verða niðurstöður könnunarinnar lagðar fram, tekin dæmi um góða og slæma áhættustýringu. Þá verður einnig fjallað um þróun á þjónustu VJI innan þessa sviðs. Að erindi loknu verður opnað fyrir spurningar.

Fyrirlesari: Helena Sigurðardóttir

Helena Sigurðardóttir hóf nýlega störf hjá VJI sem iðnaðarverkfræðingur. Hún lauk M.Sc. prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 með sérstaka áherslu á fjármálagreiningu, arðsemismat og þróun hagnýtra reiknilíkana. Lokaverkefnið fjallaði um greiningu á samkeppnishæfni íslenskra álvera og beitt var aðferð sem nefnist Analytic Hierarchy Process.

Helena hefur starfað hjá Alcoa Fjarðaáli sem sérfræðingur við hagræðingarverkefni og verkstjórn í kerskála. Þá starfaði hún hjá HRV verkfræðistofu meðal annars við gerð útboðsgagna og verkefnastjórnun og einnig nokkur sumur hjá verkfræðistofunni Verkís.

Sérsvið Helenu eru áhættugreining, fjármál, arðsemismat, áætlanagerð og verkefnastjórnun.