Vinnslugeta þekktra háhitasvæða líklega um 4300 MW af raforku
Orkustofnun hefur lagt mat á vinnslugetu þekktra háhitasvæða til raforkuframleiðslu. Samkvæmt hinu nýja mati Orkustofnunar eru líkur á að hægt sé að vinna um 4300 MW af rafafli úr þekktum háhitasvæðum á Íslandi í 50 ár. Það samsvarar um það bil 35 TWh á ári. Til samanburðar nam raforkuvinnsla frá jarðvarmavirkjunum árið 2008 um 4 TWh af raforku.
Stofnunin birtir jafnframt tölur þar sem annarsvegar er gert ráð fyrir lágmarksframleiðslugetu einstakra svæða og hámarksgetu hinsvegar. En tekið er fram að líklegast sé að sum svæði reynist aflmeiri en önnur aflminni. Meðalgildið er því talið komast næst heildarmati á vinnslugetu allra háhitasvæða.
Mat á stærð háhitasvæða byggir á yfirgripsmiklum viðnámsmælingum og athugunum á yfirborðsummerkjum. Stærð háhitakerfanna er mörkuð af útlínum háviðnámskjarna á 800 metra dýpi þar sem hitastig hefur líklega náð yfir 230°C á einhverjum tíma. Mat á vinnslugetu er svo byggt á yfirfærslu flatarvinnslugetu með rúmmálsaðferð frá fjórum völdum háhitasvæðum yfir á öll svæðin.
Þá fyrirvara verður að setja að ekki er unnt að meta með vissu vinnslugetu svæðanna nema með því að virkja þau og einnig að öll þekkt háhitasvæði eru tekin með í reikninginn þar á meðal svæði sem að öllum líkindum verða aldrei virkjuð vegna verndargildis þeirra.
Höfundar skýrslunnar eru Jónas Ketilsson frá Orkustofnun, og Héðinn Björnsson, Sæunn Halldórsdóttir og Guðni Axelsson frá Íslenskum orkurannsóknum.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér: http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-2009/OS-2009-009.pdf