120 milljarða jarðhitaverkefni í Evrópu
Aukið samstarf og fjármagn á sviði rannsókna innan EES / ESB
Á fundi stýrinefndar Evróupusamstarfsins um orkutækni til framtíðar, SETPLAN Í Brussel í gær, gerði fulltrúi íslands í nefndinni, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri grein fyrir áætlun um innleiðingu jarðhita m.a. til hitunar og raforkuvinnslu í Evrópu. Ísland á aðild á SETPLAN samstarfinu á grunni EES samstarfsins.
Guðni gegndi ásamt fleirum formennsku í vinnuhópi sem vann á sl. ári að þessari áætlun. Þar voru tekin til umfjöllunar mismunandi tæknisvið og skilgreindar áherslur og verkefni sem vinna þarf að til þess að uppfylla þau markmið sem stýrinefndin hafði áður sett í upphafi starfsins, m.a. um að auka nýtingu jarðhita, bæta samkeppnishæfni hans og draga úr kostnaði við einstaka þætti jarðhitavinnslu.
Áætlunin sem SETPLAN nefndin samþykkti eftir kynningu og umræður á fundi sínum í gær 24. janúar, gerir ráð fyrir fjármögnun rannsóknar og þróunarverkefna á sviði jarðvarma, sem alls nemur um 940 milljónum evra eða um 120 milljörðum íslenskra króna, sem koma frá aðildarlöndum, úr sjóðum Evrópusambandsins og frá iðnaðinum.
Fyrsta samstarfsverkefni Evrópulanda af þessu tagi, GEOTHERMICA, er þegar hafið og umsóknir sem nú eru þar til umfjöllunar gætu leitt til verkefna með heildarfjárhæð allt að 60 milljónum Evra eða um 7 milljörðum kr. Orkustofnun leiðir verkefnið og frá Íslandi taka einnig þátt Rannís sem stjórnar umsóknarferlinu og GEORG sem rekur skrifstofu verkefnisins og annast daglega stjórnun þess