Fréttir


CNOOC Iceland ehf. og Petoro Iceland AS gefa eftir sérleyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen. 

22.1.2018

Þann 22. janúar 2014 veitti Orkustofnun dótturfélagi kínverska ríkisolíufélagsins, CNOOC Iceland ehf, (60%), Eykon Energy ehf. (15%) og norska ríkisolíufélaginu Petoro Iceland AS, útibú á Íslandi (25%) tólf ára sérleyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen, samkvæmt öðru olíuleitarútboði Íslenska ríkisins, sem lauk þann 2. apríl 2012. 

Fyrsta hluta rannsóknarætlunar leyfishafa er nú lokið og hafa leyfishafar uppfyllt skilyrði þess áfanga, að mati Orkustofnunar og skilað niðurstöðum sínum og gögnum til Orkustofnunar í samræmi við tímaáætlun olíuleitarinnar. Í ljósi fyrirliggjandi gagna um jarðfræði svæðisins og annarra þátta sem varða m.a. rannsóknarkostnað að teknu tilliti til áhættu, hafa CNOOC Iceland ehf, og Petoro Iceland AS, í samræmi við skilmála leyfisins, ákveðið að gefa leyfið eftir. Með ákvörðun sinni falla þeir þannig frá réttindum sínum um sérleyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu og þá einnig skyldum sínum samkvæmt leyfinu um frekari olíuleit og kolvetnisrannsóknir.

Eykon Energy ehf. hefur ekki gefið eftir sinn hlut leyfisins. Það er hins vegar mat Orkustofnunar að Eykon Energy ehf. ráði hvorki yfir  tæknilegri, jarðfræðilegri né fjárhagslegri getu til að takast eitt á við þá starfsemi sem í næsta áfanga rannsóknaráætlunarinnar felst. Með eftirgjöf CNOOC og Petoro á leyfinu eru því brostnar forsendur fyrir áframhaldandi gildi þess að mati stofnunarinnar og hefur Eykon Energy ehf. verið kynnt það mat. 

Reykjavík 22. janúar 2018,

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri