Fréttir


Hjólajól á Orkustofnun

22.12.2017

Orkustofnun hefur keypt rafhjól fyrir starfsmenn stofnunarinnar sem nýtist til styttri ferða að vetrarlagi sem sumri.

Rafhjólakaupin eru í samræmi við nýja samgöngustefnu stofnunarinnar og voru kynnt í jólaerindi orkumálastjóra, en um er að ræða tilraunaverkefni. Gögnum verður safnað um nýtingu á hjólinu og að ári liðnu verður framkvæmd greining á niðurstöðum og framhaldið metið. Tilgangur rafhjólsins er m.a. til að kynna umhverfisvæn samgöngutæki fyrir starfsfólki og hvetja þá til að hreyfa sig úti í leiðinni, en rafhjólið gerir ferðirnar þægilegar og skemmtilegar.

Rafhjólið er 9 gíra með 250W mótor, 400 Wattstunda rafhlöðu og 28 tommu nagladekk. Að vetrarlagi eru slíku hjóli flestir vegir færir ef varlega er farið enda hefur það öflugan innbyggðan ljósabúnað sem er nauðsynlegt öryggistæki í skammdegisumferðinni. Hjálmur og rautt blikkljós aftan fylgja hjólinu enda skulu starfsmenn gæta fyllsta öryggis í ferðum á vegum stofnunarinnar. Mótorinn á rafhjólinu virkar þannig að það gefur aukinn kraft þegar hjólað er og þá sérstaklega í brekkum eða á móti vindi. Rafhjólið verður hægt að bóka í gegnum fundabókunarkerfi stofnunarinnar sem safnar við það gögnum um nýtinguna á því.