Gjörbreytt samgöngustefna Orkustofnunar í takt við nýja tíma
Orkustofnun teflir fram nýrri samgöngustefnu með ríka áherslu á vistvænan ferðamáta og orkuskipti í samgöngum
Orkustofnun er leiðandi afl í þjóðfélaginu varðandi orkuskipti í samgöngum og því mikilvægt að stofnunin setji gott fordæmi á því sviði, enda full ástæða til að hafa allar klær úti með það að markmiði að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.
Eitt af lykilverkfærunum sem stofnanir og fyrirtæki hafa í verkfærakistunni sinni, sem beita má í átt að orkuskiptum, er samgöngustefnan. Með henni er hægt að skapa hvata fyrir starfsmenn til að ferðast til og frá vinnu og/eða á vinnutíma með vistvænum hætti innan þeirra reglna sem settar eru af skattayfirvöldum um samgöngugreiðslur.
Eins og fram kom í jólaerindi orkumálastjóra hefur orkuskiptateymi Orkustofnunar tekið samgöngustefnu stofnunarinnar til gagngerrar endurskoðunar með það í huga að fækka ferðum á einkabílum til og frá vinnu sem og að fækka bílferðum á vinnutíma. Í þeirri vinnu hafði orkuskiptateymið það að leiðarljósi að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.
Nýmæli í samgöngustefnunni má nefna atriði eins og að starfsmenn nýti deilibílaþjónustur til ferða á vinnutíma og að leita skuli þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bíla sem knúnir eru endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig mun stofnunin bjóða upp á rafhjól sem valkost fyrir starfsmenn vegna ferða á vinnutíma.
Nánari upplýsingar er að finna í samgöngustefnu Orkustofnunar.