Fréttir


Jólaerindi orkumálastjóra 2017

15.12.2017

Ágætu starfsmenn Orkustofnunar og aðrir gestir

Okkar innra starf

Á árinu sem nú er að líða hafa margir hlutir í innra starfi stofnunarinnar þróast í jákvæða átt. Með uppbyggingu og þróun teyma hefur verið lagður grunnur að virku samstarfi um meginþætti starfsemi stofnunarinnar og skýrari stefnumörkun og hlutverkaskipan.

 Við erum ekki stór stofnun, sérstaklega ekki á alþjóðlegan mælikvarða, en sinnum mjög margbreytilegum verkefnum, sem kalla á samstarf og hreyfanlegan mannauð sem er fljótur að bregðast við nýjum verkefnum og  nýjum áherslum. Við erum líka stjórnsýslustofnun og höfum metnað til þess að vanda til verka. Það kallar á virka samvinnu starfsmanna, þar sem enginn er eyland og hugmyndalegur og stjórnsýslulegur grunnur, rýni og ábendingar eru hluti af ferlinu. Um leið þarf að ríkja milli okkar sem stöndum við þessa flæðilínu fjölbreyttra  verkefna og úrlausnarefna gagnkvæm virðing og samstarfsvilji.

Við höfum líka með nýrri tækni í gagnavinnslu, birtingu gagna og skilvirkari skráningu verkefna náð að skapa skýrari mynd af því hvernig vinnuframlag okkar greinist niður á verk og verkþætti. Það auðveldar okkur alla skipulagsvinnu, sýnir hvernig vinnuálag dreifist á einstaka starfsmenn, gerir framlag okkar í einstökum málaflokkum sýnilegt með mun skýrari hætti en áður og það sem ekki er minnst um vert gefur okkur tæki til þess að greina með skjótum hætti hvað  þarf til að sinna nýjum verkefnum sem stofnuninni eru falin þannig að við getum gert fjárveitingavaldinu grein fyrir því.

 Kjaramál og jafnlaunavottun

Nú sér kannski fyrir endann á hrinu stofnanasamninga sem fylgdu í kjölfar nýrra kjarasamninga. Gerð nýrra samninga hefur kostað miklar umræður og mikinn tíma og ég held að við höfum almennt náð að uppfylla markmiðin um að menntun sé metin til launa. Það hefur á árinu verið reynt að leiðrétta launasetningu þeirra starfsmanna, sem höfðu setið eftir miðað við hin nýju viðmið. Við verðum hins vegar að fylgja þessum málum eftir með skipulegum hætti.

Jafnréttisfulltrúi stofnunarinnar hefur lagt til að OS stofni jafnréttisteymi sem samanstandi af karli og konu sem skipti með sér verkum og vinni saman að innleiðingu jafnlaunavottunar o.fl. Lög nr. 56/2017 frá því í júní sl. sem eru breytingar á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna hafa innleitt jafnlaunavottun í regluverkið.

Varðandi tímasetningu stendur eftirfarandi í 4. gr. breytingarlaganna: Fyrirtæki og stofnanir þar sem 25–89 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun skv. 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu skv. 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2021. 

Svona innleiðing tekur tímann sinn og því ágætt að vera framarlega í þessu ferli.  Ég held að það ætti að setja á stofn slíkt  jafnréttisteymi, sem þá getur séð um  uppfærslu gildandi laga og reglugerðarumhverfi jafnréttisáætlunarinnar með tilliti til þessa og það væri þá hægt að gera áætlun um tíma og kostnað sem myndi fylgja innleiðingu á jafnlaunavottun á Orkustofnun.

 Áherslumál nýrrar ríkisstjórnar

Í gær flutti nýr forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar. Þótt við í stjórnsýslunni tökum frekar mið af laga og reglugerðarumhverfi  en yfirlýsingum stjórmálamanna er samt áhugavert að rýna í nýjan stjórnarsáttmála og hvernig pólitískar áherslubreytingar geta haft áhrif á þróun orkugeirans og starfsumhverfi okkar á næstu árum. Í stjórnarsáttmálanum segir:

 „Langtímaorkustefna verður sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.“

Það verður athyglisvert að fylgjast með nánari útfærslu þessarar yfirlýsingar. Af þeirri skýrslu um raforkuöryggi í landinu, sem MIT gerði að tilhlutan Orkustofnunar, Landsnets og Landsvirkjunar kemur skýrt fram að huga þarf að raforkuöryggi almennings og þess hluta atvinnulífsins sem ekki býr við raforkusamninga til lengri tíma.  Landsvirkjun er hins vegar fyrirtæki á samkeppnismarkaði og því vandmeðfarið að fela fyrirtækinu einhvers konar samfélagslegt hlutverk umfram almennar kröfur til fyrirtækja á þessum markaði. Það mætti þó skoða þetta í víðara samhengi og setja fram stefnu um þær  auðlindir sem íslenska ríkið er eigandi að.

Útboð á auðlindum gæti annars vegar tryggt eigandanum, ríkinu, eðlileg afgjöld fyrir að nýta auðlindina og einnig væri hægt að tengja útboðið við samfélagsleg markmið eins og t.d. að ákveðinn hluti framleiddrar raforku yrði seldur á skammtímamarkaði eða, að áframhaldandi vinnsla auðlindar, eins og t.d. kalkþörunga, færi í sem mestum mæli fram á Íslandi. Öll fyrirtæki á markaði væru þá jafnsett gagnvart slikum skilmálum.

Árið 2011 lagði þáverandi iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir fram á Alþingi  skýrslu um orkustefnu sem var árangur af talsvert umfangsmiklu nefndarstarfi sem Orkustofnun átti aðild að. Skýrslan fékk nokkra umræðu á Alþingi þótt hún fengi ekki afgreiðslu. Þótt áherslur þessarar ríkisstjórnar séu um sumt aðrar en þá voru uppi held ég að mikið af vinnu nefndarinnar megi nýta sem grunn að nýrri orkustefnu.

Okkur finnst frá ári til árs eins og hlutirnir standi í stað og það verði mjög hægar tæknibreytingar. Ef við skoðum hins vegar þróunina almennt þá sjáum við að hún er á sumum sviðum mjög ör. Ljósaperur nota nú almennt ekki nema brot af þeirri raforku sem þær þurftu fyrir áratug síðan til þess að gefa sama ljósmagn. Einangrunargler í gluggum húsa með húðun sem endurvarpar varmageislun og eðalgas milli glerja gefur varmatap sem er einungis þriðjungur þess sem venjulegt einangrunargler gaf áður. Vindorka og sólarorka sem fyrir nokkrum árum fengu ríflegar niðurgreiðslur til þess að ná endum saman efnahagslega nálgast nú að vera samkeppnishæf við jarðefnaeldsneyti í raforkuframleiðslu. Fyrir tveimur áratugum var mikill þrýstingur á stjórnvöld ýmissa landa að fá að byggja ný kjarnorkuver. Nú þurfa þessi sömu stjórnvöld að ábyrgjast ofurverð á raforku til áratuga til þess að einhverjir fáist til þess að byggja slík orkuver.

Styrking raforkukerfisins

 Enn fremur segir í stjórnarsáttmálanum:

 „Forgangsverkefi ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skoðað verði að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið.“

Nú er í gildi  þingsályktun nr. 11/144 sem samþykkt var 28. maí 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

 “Samkvæmt þeirri þingsályktun skal í meginflutningskerfi raforku meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða um­hverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til um­hverfis- og öryggissjónarmiða skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, á grundvelli skýrgreindra viðmiða sem réttlæta þá að dýrari kostur sé valinn”

 Afstaða nýrrar ríkistjórnar viðist vera að leggja frekari áherslu á lagningu jarðstrengja umfram loftlínur. Það og ákvörðun um að leggja ekki línur yfir hálendið þrengir mjög um  þá valkosti sem fyrir hendi eru til þess að uppfylla hitt markmiðið, þ.e. að tengja saman lykilsvæði raforkukerfisins og stuðla þannig að bættu orkuöryggi og betri nýtingu þeirrar raforkuframleiðslugetu sem er fyrir í landinu.

Orkuskipti í samgöngum

Horft til lengri tíma er alveg ljóst að jarðefnaeldsneyti sem orkugjafi í samgöngum á landi er á útleið á Íslandi. Hver nýtanleg orkueining í raforku kostar aðeins brot af því sem jarðefnaeldsneyti kostar jafnvel þótt litið sé framhjá allri skattlagningu. Á Íslandi er kolefnisspor raforkuframleiðslu hverfandi. Innviðir til flutnings og dreifingar raforku til samgangna eru að miklum hluta þegar fyrir hendi í raforkukerfi okkar.

Fjárfestingar í hleðslubúnaði í fjölbýlishúsum geta vissulega verið kostnaðarsamar en það sama gilti fyrir t.d. húseigendur sem skiptu úr beinni rafhitun yfir í miðstöðvarkerfi þegar húsin tengdust fjarhitakerfum. Hitaveituvæðingin í kjölfar orkukreppunnar upp úr 1970 er einmitt dæmi um erfiða fjárfestingu vegna orkuskipta. Fjárfestingarhraðinn var slíkur að á hverju ári færðist um 4% heildarnotkunar vegna hitunar frá jarðefnaeldsneyti yfir á innlenda vistvæna orkugjafa. Þá má hafa í huga að allir augljósustu orkukostirnir í jarðvarma til húshitunar höfðu þegar verið nýttir fyrir 1970. Þetta samsvarar fullum orkuskiptum til hitunar í landinu á 25 árum. Í raun ættum við að geta skipt út bílaflotanum mun hraðar.

Orkulindirnar eru fyrir hendi og vel þekktar. Í jarðhitavæðingunni þurfti víða að bora eftir heitu vatni með mikilli óvissu. Flutnings og dreifikerfi fyrir rafmagn eru nú aftur á móti víðast fyrir hendi. Vissulega þarf að styrkja raforkuafhendingu í vissum landshlutum og á vissum svæðum en það eru menn almennt sammála um að þurfi að gera án tillits til þess hvort kemur til rafbílavæðingar eða ekki. Bílar afskrifast á 10-15 árum þannig að endurnýjun bílaflotans er þrátt fyrir allt hröð. Við sjáum líka hraðar tæknibreytingar í framleiðslu rafknúinna ökutækja. Rafhlöðurnar verða sífellt öflugri og ódýrari.

Árið 2008 spáði yfirmaður frá Mitsubishi Motors því á ráðstefnu hér á Íslandi að verð á rafhlöðum fyrir bíla myndi fara úr 1000 $/kWh niður í 250$/kWh á 10 árum. Nú þegar 10 ár eru liðin sjáum við að hann hefur orðið nokkuð sannspár. Nýlega sótti bandarískur bílaframleiðandi Henrik Fisker um einkaleyfi á nýrri gerð af rafhlöðum sem eiga að duga til 1000 km aksturs og taka eina mínútu að hlaða. Hann segir slíkar rafhlöður koma á markað 2024. Svona fyrirætlunum verða menn að taka með mikilli varúð en óneitanlega gæti það orðið spennandi að handfjatla 15-20 MW innstungu á hleðslustöðinni.   

Við sjáum tæknibyltingu í búnaði rafknúinna bifreiða fyrir umferðaröryggi og aukin þægindi og dyrnar opnast að nýrri framtíð með sjálfkeyrandi ökutækjum og nýrri hlutverkaskiptingu milli almenningssamgangna og einkabíls. Ný viðskiptamódel, þar sem þú kaupir þér ekki bíl, heldur aðgang að bíl og færð við hvert tækifæri það samgöngutæki sem hentar þér hverju sinni. T.d. rafmagnshjól til þess að fara á fund í bænum í fallegu sumarveðri, tveggja sæta smábíl til þess að fara í leikhús að kvöldlagi, einhvers konar jeppabíl með læstri byssugeymslu, staðsetningarbúnaði og neyðarsendi til þess að fara til rjúpnaveiða eða tólf manna rútu til þess að fara með stórfjölskylduna á þorrablót i Fljótshlíðinni.

Ef við hugsum okkur eitt stórt fyrirtæki sem stæði frammi fyrir því að fjárfesta í bílaflota fyrir alla landsmenn og þeir sæju fram á að öll þessi fjárfesting nýttist ekki nema u.þ.b. klukkutíma á dag væru stjórnendur þess fljótir að snúa sér að öðrum viðskiptum.

 Tilraun um nýjar lausnir á Orkustofnun

Orkuskiptateymi Orkustofnunar ráðgerir að taka þátt í tilraun þar sem rafmagnsbíll verður staðsettur á bílastæði Orkugarðs. Þennan bíl geta stofnunin og starfsmenn hennar síðan leigt gegn tímagjaldi fyrir ferðir sínar  og fá um leið aðgang að neti bíla á öðrum stöðum, sem hægt er að bóka og ganga að með sama einfalda hætti. Ef slíkar lausnir breiðast út um höfuðborgarsvæðið og síðan landið allt aukast möguleikar á því að tengja saman notkun minni bíla og almenningssamgangna með skilvirkum hætti og skapa forsendur fyrir betri þjónustu, meira öryggi og auknum þægindum miðað við núverandi notkun.

Það stendur reyndar líka til að stofnunin hafi rafmagnsreiðhjól til ráðstöfunar fyrir starfsfólk. Í framhaldi af þessu er kominn tími til að stofnunin endurskoði samgöngustefnu sína og þá hvata sem hún byggir á. Mikilvægt er að við séu í framvarðarsveit og öðrum stofnunum til fyrirmyndar í þeim efnum.

Flutningar og almenningssamgöngur á landi

Almenningssamgöngur og landflutningar krefjast stærri og öflugri tækja en svo að hægt sé að knýja þær með rafmagni frá rafhlöðum á lengri vegalengdum. Íslendingar hafa enn ekki borið gæfu til þess að byggja upp raflestakerfi. Þar er sjálfsagt fyrst og fremst mannfæðinni um að kenna en með auknum ferðamannastraumi telja menn nú að skapist grundvöllur fyrir lestarsamgöngum milli Reykjavíkur og Keflavíkur.

Eftir því sem rafhlöður verða orkumeiri og ódýrari mun skapast grundvöllur fyrir rafhlöðudrifnar lestir á styttri vegalengdum sem þá myndi einfalda mjög alla þá innviðauppbyggingu sem til þarf. Þá erum við komin aftur til þess tíma þegar lestir voru koladrifnar og járnbrautarlagning yfir stærri vegalengdir takmarkaðist við tvo teina á góðu undirlagi og ekki þurfti að byggja upp dýr og flókin raforkuvirki eftir brautinni.

Það er líka álitlegur möguleiki til þess að vernda fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði að takmarka aðgengið við lestarsamgöngur. T.d væri hægt að hafa lest frá Laugarvatni að Gullfossi og Geysi og takmarka um leið alla umferð og bifreiðastöður við þessa staði. Með þessu móti væri hægt að losna við þá loftmengun og sjónmengun sem hlýst af hömlulausu flæði vélknúinna ökutækja inn á viðkvæm náttúrusvæði. Hugsanlega gætu menn svo, á áfangastað, leigt sér minni rafknúin ökutæki, einhvers konar fjallagolfbíla, til skoðunarferða eftir ákveðnum vel vörðuðum leiðum. Þannig má skapa aðgengi að náttúruperlum okkur fyrir allan fjöldann með lágmarks umhverfisáhrifum.

Virkjanir á hálendinu

Í umræðum um hugsanlega verndun hálendisins er lögð mikil áhersla á að koma í veg fyrir frekari virkjanir og línulagnir. Sérstaklega er bent á að frekari virkjanir geti haft neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn til Íslands. Það er athyglisverð fullyrðing í ljósi þess að virkjað afl á Íslandi nálgast nú þegar þrjú þúsund megawött og langstærstur hluti þess afls verður til á hálendissvæðum. Augljósasta niðurstaðan af því er að ferðamennska og orkuvinnsla geta farið ágætlega saman enda nýtir ferðamennskan vel þá innviðauppbyggingu sem hefur orðið vegna virkjana á óbyggðum svæðum.

Það ber hins vegar að virða alla viðleitni til þess að vernda verðmæt og fágæt náttúrusvæði og Rammaáætlun er ætlað það hlutverk að sjá til þess að verndun og nýting mögulegra virkjanakosta séu í sæmilegu jafnvægi. Þar skiptir máli ekki bara hvar er virkjað heldur hvernig er virkjað.

Umhverfisáhrif nýrra virkjana

Í nóvember var vígð ný jarðhitavirkjun við Þeistareyki. Það verður  athyglisvert þegar sumrar að skoða hvernig umgengnin við náttúruna hefur heppnast þar og hvaða áhrif bætt aðgengi að þessu svæði hefur á möguleika fólks til þess að heimsækja og njóta þess sem það býður upp á.

Þessi framkvæmd og hvernig að henni hefur verið staðið var skoðuð út frá sérstökum matslykli fyrir sjálfbærni jarðhitavirkjana sem hópur íslenskra stofnana og fyrirtækja sem tengjast orkuiðnaði hafa þróað út frá sambærilegum alþjóðlegum matslykli fyrir vatnsaflsvirkjanir.

Eitt sem vakti athygli mína þegar ég fór norður til þess að vera við vígslu stöðvarinnar var upplifunin af að aka með nýrri 220 kílóvolta raflínu frá Húsavík að Þeistareykjum. Nett stöguð burðarvirki og form stæðanna gerir það að verkum að sjónræn áhrif þeirra  virðast ekki meiri en hjá eldri línum með mun minni flutningsgetu, sem við sjáum víða um land.  Um þetta þarf að fá meiri umræðu og kynningu. Ég held að margir sem lýsa neikvæðri skoðun á nýjum línulögnum sjái fyrir sér möstrin á Hellisheiði sem koma á móti manni út úr þokunni eins og árásargjarnar stjörnustríðsfígúrur.

Það hefur vakið athygli mína sem orkumálastjóra  að flestar nýjar virkjanir og virkjanahugmyndir ganga í gegnum sterk skoðanaskipti og vekja öldu mótmæla og blaðaskrifa. Þær virkjanir sem er næstum algjör lognmolla í kringum eru dísilorkuver! Svo er einnig um dísilvirkjanir á hálendinu sem orkumálastjóri hefur ekkert með að gera. Á hverjum degi og þó sérstalega um helgar er stöðugur straumur krafmikilla sérútbúinna jeppa, 300 – 400 kílóvatta dísilorkuvera á fjórum hjólum, inn á hálendið. Hver bíll ber með sér um 100 lítra af dísilolíu. T.d. 300 jeppar eru sameiginlega 10 MW orkuver og með tankrými fyrir 30 rúmmetra af díslolíu.

Um þetta hefur ekki verið fjallað í rammaáætlun og þeir eru ekki háðir umhverfismati. Bílunum er ekið undir miklu álagi, vélarnar eru farnar að gefa sig eins og við sjáum þegar þeir ræskja sig út um púströrið á Miklubrautinni á leið út úr bænum. Sótmengunin frá þessum ökutækjum er því tiltölulega mikil og því til viðbótar kemur motórolía, bremsuglussi og gírolía sem lekur frá þeim á leiðinni um hálendið.

Þessi dísilorkuver á hjólum eru svo skoluð reglulega, jafnt í jökulvatni sem ferskvatnsám. Það sem þó vekur mesta athygli að eigendur þessara færanlegu dísilvirkjana virðast ekki hafa neinar áhyggjur af þeirri sjónmengun, sem þessum virkjunum þeirra fylgja, heldur taka stoltir myndir af þeim við helstu náttúruperlur Íslands og setja á samfélagsmiðla.

Hlustum á jöklana okkar

Það vakti athygli mína að þegar loksins var gengið frá frá friðun Þjórsárvera teygðu menn friðunarmörkin vel niður fyrir neðstu beitarsvæði gæsarinnar að því er virtist í þeim einum tilgangi að útiloka án samanburðar hagkvæmasta virkjanakost á landinu. En svo fylgdi líka Hofsjökull með í pakkanum.

Mesta hættan sem stafar að Hofsjökli er reyndar frá því góða fólki um allan heim sem sameinast í því að koma í veg fyrir nýtingu vistvænna orkulinda vegna þess að það telur að það sé verið að fórna með óafturkræfum hætti verðmætum, sem af ýmsum gildum ástæðum megi ekki snerta við. Vandinn er sá að eftir því sem þetta fólk eflist í baráttunni og nær betri árangri í að hindra vistvæna orkuframleiðslu þar sem hún er möguleg á jarðarkringlunni, eftir því vex kolefnismagnið í lofthjúpnum hraðar og Hofsjökull, eitt af höfuðdjásnum íslenska hálendisins bráðnar og hverfur. Við ættum kannski að sýna jöklunum okkar svolítið meiri athygli og samúð.

Ævintýramaður í heimsókn

Á árinu voru liðin 50 ár frá því að Orkustofnun var sett á laggirnar þótt margir þættir i starfi stofnunarinnar eigi sér lengri sögu. Í tilefni af því höfum við haft nokkra viðburði á árinu, fyrirlestra og málstofu. Til fyrstu málstofunnar sem sneri að áhrifum loftslagsbreytinga buðum við Oddi Sigurðssyni jöklafræðingi, sem fjallaði um hverfandi jökla á Íslandi en einnig  ítalanum og ævintýramanninum Alex Bellini sem hafði áform um að búa á borgarísjaka í Norðurskautsísnum í heilt á. Hann hafði þegar getið sér mikla frægð með því að fara einn á árabáti yrir heimshöfin.

Hann vildi æfa sig fyrir vistina á Norðurslóðum með því að ganga yfir þveran Vatnajökul en ekki vildi betur til en svo að miðja vegu hrapaði hann ásamt fylgdarmanni sínum og ljósmyndara fram af hárri jökulbrún. Eftir fyrstu fréttir af atvikinu upplifðum við nokkrar skelfingarstundir þar til í ljós kom að hann var ekki alvarlega slasaður. Hvaða áhrif þetta hefur haft á áætlanir hans vitum við ekki en af síðustu fréttum að dæma mun dvölin á borgarísjakanum ekki hefjast fyrr en í lok 2018 í fyrsta lagi.

Ágætu starfsmenn

Ég vil þakka ykkar framlag á árinu. Á stofnuninni ríkir góður starfsandi. Fullmikið þó borðað af sætum kökum og hugsanlega ættum við að efna til hugmyndasamkeppni um það hvernig við getum verið góð hvert við annað og sýnt umhyggju og þakklæti með heilbrigðari hætt og þá sérstaklega í ljósi þess að uppi eru hugmyndir um að leggja á sykurskatt.

Óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og góðs ný árs og við göngum saman inn í nýtt ár full af bjartsýni og trausti á fyrirtækið.