Fréttir


Gangsetning Pico Alto jarðvarmavirkjunar á Terceira, Azoreyjunum

11.12.2017

Eflir endurnýjanlega orku, orkuöryggi og loftslagsmál

Mánudaginn 20. nóvember var jarðvarmavirkjunin Pico Alto formlega gangsett við hátíðlega athöfn á eyjunni Terceira, sem er hluti Azoreyjaklasans og tilheyrir Portúgal. Bygging virkjunarinnar var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES (EEA Grants) með fjárveitingu upp á 3,7 milljónir evra. Verkefnið er hluti af áætlun Uppbyggingasjóðs Evrópska efnahagssvæðisins 2009 – 2014, um endurnýjanlega orku og loftslagsmál og uppfyllir verkefnið markmið sjóðsins sem snýr að því að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði með því að stuðla að nýtingu sjálfbærra og vistvænna orkugjafa og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Með verkefninu fá íbúar og fyrirtæki á svæðinu ekki aðeins aðgang að hreinni orku heldur fylgja virkjuninni ný störf til framtíðar.

Virkjunin er 4 MW í uppsettu rafafli. Áður fluttu yfirvöld olíu til eyjarinnar til raforkuvinnslu sem nú dregur úr sem nemur raforkuvinnslu virkjunarinnar. Með alþjóðlegum verkefnum sem þessum innan EES samningsins veitir Ísland öðrum löndum mikilvæga aðstoðað á sviði endurnýjanlegrar orku við nýtingu jarðhita, bæði til raforkuvinnslu og hitunar húsa í viðkomandi löndum.

Pico Alto jarðvarmavirkjunin á Terceira er dæmi um tvívökvavirkjun á Azoreyjum.

Orkuöryggi eyjarinnar eykst einnig með eigin framleiðslu, sem mögulega mun einnig draga nýja orkukaupendur að atvinnulífi eyjarinnar. Virkjunin hefur náð að framleiða allt að 4,9 MW við prófanir. Áætlað er að virkjunin sinni um tíund af raforkuþörf eyjarinnar.

Verkefni sem þessi efla einnig viðkomandi svæði efnahagslega og eru mikilvægt alþjóðlegt framlag Íslands á sviði loftslagsmála, þar sem þau draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna þannig gegn ört hækkandi hitastigi á jörðinni bæði í lofti og í sjó og stuðla að bættum lífsgæðum.

 Orkustofnun og íslensk fyrirtæki komu að verkefninu

Verkefninu var stýrt af EDA (Electricidade dos Açores), sem er eina raforkufyrirtækið á eyjunum. Orkustofnun sinnti hlutverki ráðgjafa (Donor Programme Partner) fyrir Uppbyggingarsjóð EES, við mótun og framkvæmd orkuáætlunarinnar frá upphafi og gekk verefnið mjög vel.

Fyrirtækið Jarðboranir hf komu fyrst að vinnu við Pico Alto jarðhitasvæðið árið 2003 þegar boraðar voru 4 hitastigulsholur. Þær gáfu til kynna að 240°C væru að finna á 600 metra dýpi.  Jarðborinn Jötunn var svo fluttur til Terceira þar sem frekari rannsóknarholur voru boraðar árin 2006 og 2007. Sami jarðbor var síðan notaður við borun á þremur vinnsluholum 2009 sem náðu 1.900 metrum. Virkjunin nýtir orku úr háhitakerfi eyjarinnar.

ÍSOR kom að verkefninu 2012 með líkanreikningum fyrir jarðhitasvæðið. Síðar kom ÍSOR að skipulagningu, framkvæmd og túlkun á bæði styttri og lengri rennslisprófunum. Að lokum vann ÍSOR að uppfærslu á þeim líkanreikningum sem þegar hafði verið byrjað á með nýjum gögnum. Fjórir jarðhitasérfræðingar frá Azoreyjum komu einnig til Íslands í 6 mánaða sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita hjá Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Að auki voru sex styttri námskeið haldin á Azoreyjum.

Framkvæmdir við virkjunina sjálfa, fyrir utan boranir, hófust í janúar 2016. Prófanir hófust í maí á þessu ári og framleiðsla inn á raforkukerfið á Terceira hófst í haust. Því má segja að framkvæmdir hafa gengið vel þrátt fyrir að vinna hafi legið niðri í allnokkurn tíma vegna mikillar úrkomu á tímabilinu.

 Sendinefnd frá Íslandi var viðstödd gangsetninguna

Sendinefnd frá Íslandi var viðstödd gangsetningu virkjunarinnar í boði EDA, ásamt forseta Azoreyja og fleiri ráðamönnum. Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri skrifstofu iðnaðar og nýsköpunar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fór fyrir sendinefndinni fyrir hönd íslenska ríkisins og flutti ávarp við athöfnina. Með í för voru aðilar frá Orkustofnun, ÍSOR, Landsvirkjun, Orku náttúrunnar, Jarðborunum, Mannviti og Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.