Fréttir


Mikil gróska í líforkumálum á Akureyri

8.12.2017

Mikil gróska er á Akureyri á sviði umhverfisvænnar orku, í átt að kolefnishlutleysi og spennandi tímar á sviði orkuskipta framundan.

Starfsmenn orkuskiptateymis Orkustofnunar kynntu sér nýverið stöðu endurnýjanlegrar orku í samgöngum og nýtingu lífmassa á Akureyri. 

Akureyrarsetur Orkustofnunar var heimsótt, þar sem Guðmundur H. Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku kynnti starfsemi félagsins og stöðuna í þessum málum á Akureyri þar sem stefnt er að kolefnishlutlausu samfélagi. Eitt af því sem bent var á var að þegar eru í rekstri nokkrar rafhleðslustöðvar fyrir rafbíla á Akureyri og voru þrjár þeirra heimsóttar. Stöðvarnar eru í eigu og rekstri ON, Norðurorku og Rarik. Stöðvunum á svæðinu mun fjölga á næstunni þar sem Vistorka fékk nýverið styrk úr Orkusjóði sem hluta af styrkveitingum til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla til að setja upp 11 hleðslustaura á Norðurlandi til að styrkja atvinnusvæðið. Flest verkefnin sem lýst er hér að neðan hafa hlotið styrki úr Orkusjóði og verið studd dyggilega af Orkusetri.

Fyrirtækið Molta var heimsótt en þar er tekið á móti lífrænum úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar og hann nýttur til moltugerðar. Til stendur að bæta við meðhöndlun á sláturúrgangi og m.a. nýta fituna úr honum til lífdísilframleiðslu.

Einnig var fyrirtækið Orkey heimsótt, en þar er framleiðsla á lífdísli úr úrgangssteikingarfeiti, en hann er nýttur á strætisvagna á Akureyri, á fiskiskip og við malbiksframleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Stefnt er að aukinni framleiðslu með því að bæta vinnslu á fitu úr sláturúrgangi við ferlið eins og áður var nefnt.

Metan er unnið úr gömlu sorphaugum bæjarins og er stefnt að því að “virkja” mykju af Eyjafjarðarsvæðinu og nýta hana til aukinnar metanframleiðslu eða fyrir um 2-3.000 fólksbíla á ári.

Annað sem vakti athygli var rafhjólavæðing starfsfólks Norðurorku en rafhjól eru ódýr umhverfisvæn samgöngutæki og að vetrarlagi eru slíkum hjólum flestir vegir færir á nagladekkjum ef varlega er farið enda hafa þau eðli málsins samkvæmt öflugan innbyggðan ljósabúnað sem er nauðsynlegt öryggistæki í skammdegisumferðinni.

Orkuskiptateymi Orkustofnunar hefur í mörg horn að líta þessa dagana og vinnur af krafti að því að safna hugmyndum sem nýtast sem hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda um orkuskipti samanber þingsályktun nr. 18/146 en þar kemur m.a. fram að stefnt verði að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Nánar er fjallað um orkuskiptaáætlunina á vef Orkustofnunar.

Til að uppfylla slík markmið er ljóst að nauðsynlegt er að nýta sem flestar af þeim leiðum og tækni sem reynsla er komin á og geta og hafa þegar skilað árangri á þessu sviði. Það eru því spennandi tímar framundan í málum tengdum orkuskiptum á Íslandi. Orkustofnun, Orkusjóður og Orkusetur munu halda áfram að styðja við verkefni á sviði orkuskipta um allt land.