Orkustofnun tekur við formennsku í vettvangi eftirlitsaðila endurnýjanlegs eldsneytis í Evrópu
Um er að ræða óformlegan vettvang sem kallast REFUREC (e. Renewable Fuels Regulators Club) og tók Orkustofnun við formennskunni til næstu tveggja ára á fundi sem haldinn var í Reykjavík um miðjan september sl.
Með REFUREC samstarfinu gefst eftirlitsaðilum á sviði endurnýjanlegs eldsneytis í Evrópu færi á að hittast og bera saman bækur sínar, en mikil gróska er á sviði endurnýjanlegs eldsneytis og rafbíla í Evrópu. Eftirlitsaðilarnir vinna eftir tveimur Evróputilskipunum (e. Renewable Fuels Directive og Fuel Quality Directive) sem hafa verið innleiddar í íslensk lög með lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi frá 2013 og reglugerðum tengdum þeim lögum og einnnig með nýrri reglugerð um gæði eldsneytis frá 2016.
Eftirlitsstofnanir á sviði endurnýjanlegs eldsneytisí í 30 löndum taka þátt í reglulegum fundum á vegum REFUREC. Formennska Orkustofnunar mun auka sýnileika Íslands á þessu sviði í Evrópu enda hefur sérstaða Íslands í orkumálum mikið erindi til annarra landa og sem dæmi vakti kynning á þingsályktun um aðgerðaráætlun um orkuskipti athygli á fundinum í Reykjavík í síðustu viku.
Nánari upplýsingar veita Þórarinn S. Arnarson og Anna Lilja Oddsdóttir.