Mikill áhugi í Evrópu á Geothermica verkefninu
Mikill áhugi virðist vera á GEOTHERMICA jarðhitaverkefninu, þar sem borist hafa 35 umsóknir frá 11 löndum, en umsóknarfrestur rann út 10. júlí sl. GEOTHERMICA er samstarfsverkefni Evrópusambandsins og 16 stjórnsýslu- og rannsóknarmiðstöðva í 13 löndum Evrópu og stýrir Orkustofnun verkefninu, en RANNÍS er einnig aðili að verkefninu hér á landi.
Verkefnið er fjármagnað með framlögum í hverju þátttökulandi, auk framlaga frá rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins, Horizon 2020. Áhersla er lögð á aukið samstarf á milli rannsóknaraðila og atvinnulífs á einstaka svæði, auk þess að stuðla að auknu samstafi á milli landa.

Markmið áætlunarinnar er að styðja við og hraða framþróun jarðhitanýtingar innan þátttökulandanna. Til að ná markmiðum verkefnisins verður 32 milljónum evra, eða 3,5 milljörðum íslenskra króna, varið til að styðja við nýsköpunar- og þróunarverkefni í jarðhita.
Markmið GEOTHERMICA er einnig að samnýta rannsóknafé frá þátttökulöndunum annars vegar og frá ESB hins vegar, til rannsókna og nýsköpunar á sviði jarðhita, auk þess að efla samstarf, tengslanet og viðskiptasambönd innan jarðvarmageirans í Evrópu. Þá er ætlunin að koma á langvarandi og stefnumótandi samstarfi meðal þeirra aðila sem veita styrki á sviði jarðhitarannsókna og nýsköpunar.
Fjöldi umsókna í þessu fyrsta útboði GEOTHERMICA sýnir vaxandi áhuga á framþróun jarðhitanýtingar þar sem umsóknir bárust frá frá 11 löndum, vítt og breitt um Evrópu. Um er að ræða svokallaðar forumsóknir, þar sem matsferlið er í tveimur hlutum. Samtals óska þessir umsækjendur eftir rúmum 76 milljónum evra í samstarfsverkefni sín. GEOTHERMICA samstarfið er mikilvægt skref í fjármögnun nýsköpunar- og tækniþróunarverkefna á sviði jarðvarmanotkunar og er framhald af ERA NET verkefninu, sem lauk árið 2016.
Umsóknirnar eru m.a. flokkaðar eftir því frá hvaða landi aðalumsækjandi kemur. Flestar umsóknir með aðalumsækjanda koma frá Hollandi, eða 7 talsins, en þegar litið er á þátttakendur almennt þá er þátttakan mest frá Þýskaland. Sjá meðfylgjandi mynd. Um er að ræða 15 stór nýsköpunar- og tækni-þróunarverkefni þar sem óskað er eftir rúmlega 57 milljónum evra og 20 smærri verkefni þar sem óskað er eftir rúmlega 18 milljónum evra.
Þessar forumsóknir verða metnar í sumar, með það að markmiði að bjóða völdum umsækjendum að halda áfram í seinni umferð eigi síðar en 11. september 2017. Umsóknarfrestur til þess að skila inn fullgildri umsókn er 24. nóvember 2017. Stefnt er að því að árangur og niðurstöður þessara fyrstu verkefnum liggi fyrir á árinu 2021.
Frekari upplýsingar veita: GEOTHERMICA skrifstofan, Tengiliðir: Alicja Wiktoria Stokłosa og Hjalti Páll Ingólfsson. Tölvupóstur: info@georg.cluster.is Nánari upplýsingar má einnig sjá á www.geothermica.eu/