Fréttir


Raforkuspá 2017 – 2050 - Endurreikningur á spá frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum

21.7.2017

Í skýrslunni er fjallað um raforkunotkun fram til ársins 2050. Hún er unnin á vegum Orkuspárnefndar og er endurreikningur á spá frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum.

Spáin er m.a. byggð á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina. Notkuninni er skipt niður í sex meginnotkunarflokka auk dreifi- og flutningstapa. 

Auk þess er henni skipt eftir því frá hvaða kerfishluta orkan er afhent, þ.e. beint frá virkjun, frá flutningskerfinu eða frá dreifikerfum, og eftir tegund afhendingar þar sem um er að ræða forgangsorku og orka með skerðanlegan flutning. Fyrir notkun frá flutningskerfinu (stórnotendur sbr. Skilgreiningu rforkulaga) er einungis tekin með í spána sú orka sem fram kemur í þegar gerðum samningum og eru án allra fyrirvara um afhendingu.

Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur farið yfir forsendur síðustu raforkuspár, frá 2015, út frá nýjum gögnum sem borist hafa frá því spáin kom út (sjá ritaskrá varðandi nýjar upplýsingar).

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

•    Raforkuvinnsla á landinu árið 2016 var alls 18.549 GWh eða 921 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og heildarálag á kerfið var 92 MW minna en áætlað var, sjá töflu 4.2 á bls. 26. Stafar þetta frávik af minni notkun sem fædd er frá flutningskerfinu (stórnotendur) og dreifikerfinu (almenn notkun) auk þess sem flutningstöp eru hlutfallslega minni en gert var ráð fyrir árið 2015. Úttekt frá virkjunum var aftur á móti meiri en spáð var.

•    Notkun tekin frá flutningskerfinu (stórnotendur) var 586 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og þar af var frávikið hjá álfyrirtækjum 400 GWh og hjá United Silicon 195 GWh. Um áramótin 2015/2016 fluttist raforkuafhending til gagnavers Advania frá dreifikerfinu til flutningskerfisins og ef sú breyting hefði ekki komið til hefði þetta frávik verið meira eða um 680 GWh. Afhending frá dreifikerfinu var alls um 300 GWh minni en spáin miðaði við og ef ekki hefði komið til tilflutningur gagnavers Advania hefði frávikið verið rúmlega 200 GWh. Ef einungis er horft á forgangsorku er frávikið 173 GWh og ef ekki hefði komið til breytingin hjá Advania er það 79 GWh. Flutningstöp voru alls 52 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir. Úttekt vinnslufyrirtækja var 23 GWh umfram spá. Skerðanleg orka til almennra nota var 133 GWh minni en spáð var sem stafar að mestu af lítilli loðnuveiði.

•    Mesta aflþörf raforkukerfisins árið 2016 varð þann 29. nóvember milli klukkan 10 og 11 og var þá meðalálag á orkuver kerfisins 2.379 MW og hafði minnkað um 5 MW frá árinu á undan. Aflþörf dreifiveitna var mest 18. janúar um 590 MW, úttekt frá flutningskerfinu var mest 1.696 MW þann 29. nóvember, þörf vinnslufyrirtækja var mest 72 MW og töp í flutningskerfinu námu 57 MW. (Sjá nánar í viðauka 5, töflu 4 og 5 og mynd V5.10 á bls. 81).

•    Samkvæmt þessari spá mun afhending frá dreifikerfinu aukast um 10% fram til 2020 og um 91% alls til 2050 og eru dreifitöp meðtalin. Árleg aukning þessarar notkunar er 1,9% að meðaltali næstu 34 árin.

•    Áætluð forgangsorka sem afhent er frá dreifikerfinu hefur við þennan endurreikning dregist saman um 29 GWh fram til ársins 2030 en eykst um tæp 22 GWh árið 2050 frá því sem fram kemur í spánni frá 2015, sjá töflu 4.3 á bls. 27. Notkun heimila, veitna og fiskveiða er lítilsháttar meiri en í spánni frá 2015, á móti kemur minni notkun í iðnaði, þjónustu og landbúnaði.

•    Minni fólksfjöldi í lok spátímabils en miðað var við í spánni frá 2015 dregur úr raforkunotkun heimila en á móti kemur að nýjar upplýsingar um bifreiðatíðni og breyting á forsendum um orkuskipti auka raforkunotkun heimila vegna samgangna og niðurstaðan verður aukning um 49 GWh við lok spátímabilsins.

•    Mest er breyting í iðnaði og með breyttum forsendum um jafnstöðuafla í loðnu dregur úr notkun á móti kemur að hlutfall af kolmunna og makrílafla sem fer til bræðslu er hækkað, og niðurstaðan verður að notkun dregst saman um 71 GWh við lok tímabilsins.

•    Einnig er ýmsum öðrum forsendum spálíkansins breytt í samræmi við nýjar rauntölur og þjóðhagsspár.

Í viðauka 1 er sýnd raforkuvinnsla á landinu árið 2016. Í viðauka 2 er raforkunotkun á landinu árið 2016 greind niður á notkunarflokka og dreifiveitur. Í viðauka 3 er notkunin greind niður á notkunarflokka og landshluta. Í viðauka 4 er notkun samkvæmt spánni skipt niður á afhendingarstaði frá flutningskerfinu.

Birtar eru þrjár töflur um raforkunotkun það er fyrir heildarorku, forgangsorku og skerðanleg orku. Fyrir aflþörf er birtar töflur fyrir heildarafl og forgangsafl, annars vegar þegar mesta álag er á hverja stöð (tími mesta álags er mismunandi eftir stöðvum og er hann fyrir árið 2016 sýndur í töflum 13 og 15 í viðauka 5, þessi afltoppur segir til um aflþörf viðkomandi stöðvar) og hins vegar eru töflur um álag á stöðvar á þeim tíma þegar álag er mest á kerfið í heild. Teknar eru saman upplýsingar um aflþörf í raforkukerfinu á árinu 2016 í viðauka 5. Viðauki 6 birtir upplýsingar um mötun inn og út af flutningskerfinu og í viðauka 7 er sýnd raforkunotkun á veitusvæðum dreifiveitna síðustu fimm ár.

Sjá skýrsluna í heild sinni hér.