Fréttir


Leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga

17.7.2017

Orkustofnun veitti þann 14. júlí sl. málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources ehf. í Reykjanesbæ, leyfi til fimm ára til leitar og rannsókna á málum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga. Leyfið tekur til leitar og rannsókna á málmum, með sérstaka áherslu á gull og kopar, á um 1013 ferkílómetra svæði. 

Orkustofnun féllst að stærstum hluta á umbeðna umsókn. Heimild til kjarnaborana er þó bundin við afmörkuð svæði innan leitar- og rannsóknasvæðisins, að undangengnu frekara mati á leitar- og rannsóknaáætlun Iceland Resources ehf. fyrir þau afmörkuðu svæði sem fyrirtækið vill rannsaka nánar. Orkustofnun mun senda beiðni um frekara mat af þessu tilefni til lögboðinna umsagnaraðila og annarra aðila eftir atvikum.

Orkustofnun leggur áherslu á, að Iceland Resources ehf. sýni sérstaka aðgát á þeim hluta grannsvæðis vatnsbóla á Vaglaeyrum sem er innan leyfissvæðisins. Orkustofnun telur einnig áríðandi að koma í veg fyrir mengun vatns, og að öllu raski, s.s. sýnatöku, sé haldið í lágmarki í og við ár, vötn og læki á svæðinu, því auk vatnsbóla eru veiðihagsmunir í húfi. Iceland Resources ehf. þarf að afla tilskilinna leyfa hjá umsjónaraðilum, ef fyrirhuguð er málmleit innan fólkvangsins að Hrauni í Öxnadal, Hörgársveit og fólkvangs í Glerárdal, Akureyrarkaupstað. Fyrirtækið þarf einnig að gæta sérstakrar varúðar í umgengni innan svæða á náttúruminjaskrá, þ.e. 1) fjalllendisins milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, og 2) Hraunsvatns og Vatnsdals. 

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar forsætisráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veiðimálastofnunar, Akrahrepps, Akureyrarkaupstaðar, Dalvíkurbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Hörgársveitar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.    

 Leyfið má finna hér, auk korta af leyfissvæði, og fylgibréfi með leyfi.