Fréttir


Umsagnir viðskiptavina Landsnets vegna kerfisáætlunar og athugasemdir Orkustofnunar

10.5.2017

Orkustofnun vinnur nú að því að fara yfir kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2016-2025 en stofnunin fékk áætlunina til meðferðar í lok mars 2017.

Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Við stjórnsýslulega meðferð kerfisáætlunar skal Orkustofnun hafa samráð við viðskiptavini Landsnets.

Orkustofnun bauð viðskiptavinum Landsnets að koma á framfæri skriflegum athugasemdum vegna kerfisáætlunar og bárust athugasemdir frá sex viðskiptavinum; Íslenskri orkumiðlun, Landsvirkjun, Norðuráli, Orku náttúrunnar, RARIK og Veitum.

Orkustofnun hefur einnig rýnt kerfisáætlunina og er það mat stofnunarinnar að ekki séu settar fram fullnægjandi upplýsingar um einstakar framkvæmdir og valkosti í áætluninni í samræmi við raforkulög og reglugerð um kerfisáætlun. Orkustofnun hefur því óskað eftir að Landsnet geri breytingar á kerfisáætluninni og taki tillit til ábendinga stofnunarinnar. Í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að veita umbeðnar upplýsingar, t.d. þegar þær liggja enn ekki fyrir eða viðskiptahagsmunir standa í vegi fyrir að upplýsingar séu gerðar opinberar, þarf Landsnet að gera sérstaklega grein fyrir því í kerfisáætlun.

Landsnet hefur fjórar vikur til þess að bregðast við umsögnum viðskiptavina fyrirtækisins og athugasemdum Orkustofnunar.

Hér að neðan má finna athugasemdir Orkustofnunar við kerfisáætlun auk þeirra umsagna sem Orkustofnun hafa borist frá viðskiptavinum Landsnets vegna kerfisáætlunar:

Umsögn Orkustofnunar

Umsögn Íslenskrar orkumiðlunar

Umsögn Landsvirkjunar

Umsögn Norðuráls

Umsögn Orku náttúrunnar

Umsögn RARIK

Umsögn Veitna