Fréttir


Kerfisáætlun Landsnets 2016-2025

22.3.2017

Viðskiptavinum er boðið að koma á framfæri umsögnum til Orkustofnunar vegna kerfisáætlunar

Orkustofnun hefur það hlutverk að fara yfir og meta árlega hvort kerfisáætlun Landsnets um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku samræmist ákvæðum laga. Við meðferð áætlunarinnar ber Orkustofnun einkum að líta til þess hvort áætlunin samræmist markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. 

Orkustofnun hefur nú fengið kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2016-2025 til stjórnsýslulegrar meðferðar. Í samræmi við ákvæði raforkulaga mun Orkustofnun hefja samráðsferli við viðskiptavini Landsnets sem eru dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og raforkusalar. Verður þessum aðilum boðið að koma á framfæri umsögnum til Orkustofnunar vegna kerfisáætlunar. Orkustofnun mun síðar birta þær umsagnir sem berast frá viðskiptavinum Landsnets á heimasíðu stofnunarinnar en frestur til þess að koma á framfæri umsögnum er veittur til 19. apríl nk. 

Kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2016-2025 má finna hér.