Fréttir


Raforkunotkun ársins 2016 - minnkun raforkunotkunar

13.3.2017

Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur sent frá sér fréttatilkynningu um raforkunotkun ársins 2016. Árið 2016 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 18.547 GWh og minnkaði um 1,3% frá fyrra ári. Notkun fædd frá flutningskerfinu (stórnotkun) nam 14.287 GWh á árinu 2016 og minnkaði um 0,5% frá fyrra ári. Almenn notkun (forgangs- og skerðanleg orka) minnkaði um 4,2% og nam 3.901 GWh. Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 358 GWh og minnkuðu um 3,1%. 

Minnkun almennrar raforkunotkunar á síðasta ári stafar að mestu af eftirfarandi þáttum: 

 • Veðurfar var gott árið 2016 og lofthiti í Reykjavík var að meðaltali um 1,5°C hærri það ár en árið á undan (tölur leiðréttar út frá lofthita eru sýndar innan sviga þar sem slíkt á við). 

• Loðnuafli var mun minni árið 2016 (um 100 þús. tonn) en árið 2015 (um 350 þús. tonn) en vinnsla loðnu kallar á verulega raforkunotkun og er hún að stórum hluta afhent sem skerðanleg orka. 

• Afhending raforku til gagnavers, sem upphaflega fékk orku frá dreifikerfi raforku, fluttist yfir til flutningskerfisins um mitt ár 2016. 

Almenn raforkunotkun minnkaði hjá fimm af sex dreifiveitum sem starfandi eru á landinu, en einungis var smávægileg aukning á veitusvæði Veitna (höfuðborgarsvæðið). Ef einungis er horft á forgangsorku sést sama myndin, einungis ein dreifiveita með aukningu. Skerðanleg notkun minnkaði um 19% á milli ára aðallega vegna minni notkunar fiskimjölsverksmiðja en einnig minnkaði notkun hjá rafkyntum hitaveitum vegna góðs veðurfars.

Fréttatilkynninguna í heild sinni má lesa hér.