Fréttir


Möguleikar smájarðvarmavirkjana á Íslandi

Afmæliserindi Orkustofnunar 

15.2.2017

Fram kom á málstofu Orkustofnunar, í tilefni 50 ára afmælis stofnunarinnar, að raforkuflutningskerfið er komið að þolmörkum og að á næsta ári er mögulegt að orkuöryggi sé ekki tryggt. Staðan er einfaldlega sú að eftirspurn eftir raforku er umfram framboð. Til greina kemur að leita að staðbundnum lausnum og kanna hvaða smærri virkjanakostir koma til greina bæði í vatnsafli og jarðvarma.

Fram kom að hægt er að framleiða allt að 70 MW af raforku úr borholum á 38 vinnslusvæðum sem í dag eru einvörðungu að hluta nýtt til húshitunar. Raforkan getur aukið rekstraröryggi hitaveitna með því að tryggja raforku til dælingar og gert húshitun óháða áföllum í flutningskerfi raforku sem meðal annars geta orðið við jarðhræringar á rekbeltinu og lamað raforkukerfi landsins til dæmis vegna hamfarahlaupa. Aukinheldur getur nýting holanna aukið orkusjálfstæði einstakra byggðalaga sem hafa þessa orku til staðar og dregið úr þörf á raforkuflutningi til þeirra frá virkjunum inn á gosbeltinu með tilheyrandi sjónrænum áhrifum.

Á málstofunni var einnig farið yfir hagkvæmni smájarðvarmavirkjana. Fram kom að líklega muni smájarðvarmavirkjunum, sem nýta frárennsli frá hefðbundnum jarðvarmavirkjunum, fjölga á komandi árum. Hagkvæmni smájarðvarmavirkjana ræðst af verulegum hluta af raforkuverði og á Íslandi er raforkuverð lágt. Með því að virkja saman rafafl og hita eykst hagkvæmnin. Enn fremur er hagkvæmni fólgin í smájarðvarmavirkjunum, sem staðsettar eru á röskuðu svæði í byggð.

Á febrúarmálstofu vegna 50 ára afmælis Orkustofnunar kynnti Björn Már Sveinbjörnsson, tæknifræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, rannsóknarskýrsluna „Medium Enthalpy Geothermal Systems in Iceland“.   Þá fjallaði Kristinn Ingason, sviðsstjóri jarðvarmavirkjana hjá Mannvit, um hagkvæmni smájarðvarmavirkjana. Sjá glærur og upptöku frá fundinum neðst í fréttinni.

Skýrsla Björns greinir frá árangri við borun 289 borhola í sjóðandi lághitakerfum eða svonefndum meðalhitakerfum hér á landi. Kerfin sem valin voru til greiningar uppfylltu þau skilyrði að þar hefði mælst yfir 100°C hiti í holum eða fundist vatn þar sem styrkur kísils benti til meira en 100°C hita.Holurnar eru á 81 borsvæðum innan 37 jarðhitakerfa og voru boraðar á árunum 1928-2014.

Flestar holanna voru boraðar lóðrétt. Boruð dýpt var frá 10-3085 m, að meðaltali 632 m. Af 289 holum skiluðu 173 eða 60% vatni og 62% þeirra eru enn í notkun. Flæði er þekkt í 132 heppnuðum holum. Meðalflæði þeirra er 17 l/s.

Af vinnsluholunum 289 náðu 193 mældum hita yfir 90°C og þær voru greindar frekar. Boruð dýpt þeirra spannar frá 52-3085 m, meðaltal 861 m. Af þessum 193 holum skiluðu 149 eða 77% vatni og af þeim eru 104 eða 70% enn í notkun. Gögn um flæði eru til frá 132 af þessum holum. Meðalflæði þeirra er 17,3 l/s.  Flestar holurnar (89%) eru með æðar eru ofan við 1000 m dýpi. Flæðið er allt að 60 l/s. Flæði á bilinu 0-10 og 10-20 l/s er algengast, með tíðni 47% og 27%. Aðeins 2 holur hafa flæði yfir 62 l/s, önnur 100 og hin 110 l/s. Það eru engar vísbendingar um að magn flæðis sé háð hitastigi vatnsins.

Holur með flæðishita yfir 80°C eru taldar árangursríkar til húshitunar. Þær eru 68% af 193 holum. Holur með flæðishita yfir 95°C eru taldar nýtanlegar til hugsanlegrar rafmagnsframleiðslu. Þær eru 57% af 193 holum.

Þau 37 jarðhitakerfi sem voru greind hafa samanlagt sannað varmaafl 935 MW ef það er nýtt niður að 35°C. Ef varmaaflið í 29 kerfanna er nýtt til raforkuframleiðslu niður að 80°C fást 44 MW rafafls og í afgangsvatni fælist varmaafl 494 MW til beinna nota frá 80°C niður í 35°C. Tíu stærstu jarðhitakerfin hafa sannað varmaafl frá 37-132 MW og rafaflsmöguleika frá 1,0-7,4 MW.

Jarð­hita­kerfið í Ölfusdal ofan Hveragerðis er á mörkum þess að flokkast sem háhitakerfi. Varmaafl þess niður að 35°C kastvarma er 334 MW. Ef það er nýtt til raforkuframleiðslu niður að 80°C fást 25 MW rafafls og í afgangsvatni fælist varmaafl 86 MW til beinna nota frá 80°C niður í 35°C. 

Þessi skýrsla er hluti verkefnis um greiningu árangurs jarðhita­borana á Íslandi, viðbót við gagnagrunn Orkustofnunar og liður í framlagi Íslands til alþjóðasamstarf­anna International Energy Agency - Geothermal Implementing Agreement (IEA-GIA) og International Partn­ership for Geothermal Technology (IPGT).

Skýrsluna má nálgast á slóðinni: http://os.is/gogn/Skyrslur/ISOR-2016/ISOR-2016-008.pdf

Áður var búið að greina árangur í háhitaholum hér á landi í skýrslunni „Success of High Temperature Geothermal Wells in Iceland“ sem nálgast má á slóðinni:  http://os.is/gogn/Skyrslur/ISOR-2014/ISOR-2014-053.pdf

Glærur Björns frá fundinum má nálgast hér.   -   Glærur Kristins frá fundinum má nálgast hér.

Upptöku af fundinum, með glærum er á  slóðinni :      

http://secure.emission.is/player/default.aspx?e=0cc6e799-9470-4670-9105-78c42a0334b3