Fréttir


Fjallað um orkumál á fundi Orkustofnunar og Davor Ivo Stier, utanríkis- og Evrópumálaráðherra Króatíu

2.2.2017

Í tilefni af heimsókn Davor Ivo Stier, utanríkis- og evrópumálaráðherra Króatíu, til Íslands kynnti Orkustofnun fyrir ráðherranum stöðu samstarfsverkefnis milli Orkustofnunar og systurstofnunar í Króatíu, EIHP (Energy Institute Hrvoje Pozar). Einnig var komið inn á aðkomu stofnunarinnar að öðrum erlendum verkefnum fjármögnuðum af Uppbyggingarsjóði EES. 

Samstarfsverkefnið snýr að því að kortleggja og meta möguleikana á að nýta jarðhita til húshitunar og þar sem gashitaveita er í rekstri til að dreifa orkunni. Fulltrúar frá Orkustofnun og EFLU verkfræðistofu fóru til Króatíu í nóvember síðastliðnum til funda með króatískum samstarfsaðilum, fulltrúum sveitarfélaga og ríkisstjórnar og til að meta aðstæður.

Fram kom að möguleikar á nýtingu á jarðvarma í Króatíu eru miklir og yrðu skoðaðir frekar.  Ljóst er að nýting á jarðvarma í Króatíu ætti að stuðla að auknu orkuöryggi landsins þar sem að árið 2014 var 44% af allri orkuþörf landsins innflutt. Með nýtingu innlendra orkugjafa eykst orkuöryggi og vöruskiptajöfnuður, eins og hefur reynst Íslandi farsælt á liðnum áratugum. Áætlað er að utanríkisráðherranum verði kynnt efni skýrslunnar á vormánuðum þessa árs.

Sjá einnig nánari upplýsingar um verkefnið hér.