Ithaca, Kolvetni og Petoro gefa eftir sérleyfi á Drekasvæðinu
Orkustofnun hefur í dag staðfest ósk rekstraraðilans Ithaca Petroleum ehf. um eftirgjöf á sérleyfi þeirra, nr. 2013/02, og samstarfsaðila, Kolvetnis ehf. og Petoro Iceland ehf, sem gefið var út 4. janúar 2013.
Orkustofnun hefur fallist á ósk um eftirgjöf sérleyfisins þar sem skilmálar leyfisins hafa verið uppfylltir og öllum gögnum skilað í samræmi við kröfur stofnunarinnar.
Leyfishafarnir söfnuðu 1.000 km af endurkastsgögnum á leyfissvæðinu sl. sumar í samræmi við ákvæði leyfisins. Túlkun gagnanna leiddi til þeirrar ályktunar rekstraraðilans að ekki væri ástæða til að halda áfram rannsóknum og skuldbinda sig til að takast á við rannsóknaráætlun samkvæmt öðrum áfanga leyfisins.
Þann 1. desember sl. átti Orkustofnun fund með leyfishöfum, þar sem farið var yfir niðurstöður jarðfræðirannsóknanna. Á þeim fundi samþykktu leyfishafarnir samhljóða að leita formlega eftir heimild Orkustofnunar um að gefa sérleyfið eftir.
Jarðfræðirannsóknir byggðar á nýju endurkastsgögnunum benda til þess að líkur á að finna olíu og/eða gas á afmörkuðu svæði sérleyfissvæðis sem rannsakað var, gefi ekki tilefni til að takast á við næsta áfanga rannsóknaráætlunar sérleyfisins. Niðurstöður túlkunar Ithaca Petroleum á gögnunum leiðir líkur að því að á svæði sem leyfishafarnir töldu fýsilegt, væri móðurberg kolvetna á dýpri jarðlögum en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna.
Orkustofnun bendir á jarðfræðiaðstæður á að leyfissvæði Ithaca Petroleum eru gjörólíkar aðstæðum á því leyfissvæðinu sem enn er rannsakað samkvæmt leyfi nr. 2014/01. CNOOC International er rekstraraðili þess svæðis og halda rannsóknir þar áfram í samræmi við rannsóknaáætlun leyfisins.
Orkustofnun þakkar viðkomandi leyfishöfum fyrir þeirra framlag til rannsókna á Drekasvæðinu.