Fréttir


Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum sigrar á Íslandi í alþjóðlegu keppninni PetroChallenge

2.12.2016

Þann 17. nóvember sl. fór fram landsmót framhaldsskólanema hér á landi í keppninni PetroChallenge Iceland, en keppnin er hluti af alþjóðlegri keppni sem ber heitið PetroChallenge. Keppnin fer þannig fram að nemendur vinna við olíuleitarherminn OilSim sem er hugbúnaður sem líkir eftir raunverulegum aðstæðum í olíuleit.   

Tilgangur mótsins er að vekja áhuga framhaldsskólanema á þeim fræðigreinum sem tengjast alþjóðlegum  verkefnum á sviði olíuleitar, svo sem jarðvísindum, verkfræði, umhverfis- og öryggismálum.

Í OilSim herminum er keppt við aðstæður sem eru líkar þeim sem alþjóðleg olíuleitarfyrirtæki vinna við, til dæmis að bjóða í útboð um leyfisveitingar, keppa um og velja réttu svæðin til borunar, taka tillit til margvíslegra umhverfis- og öryggissjónarmiða, finna verkfræðilegar úrlausnir, hagkvæmnisútreikninga  og margt fleira.

Að þessu sinni voru fjögur lið sem tóku þátt frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og sjö lið frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum en Orkustofnun hefur verið styrktaraðili mótsins, frá árinu 2010.

Sigurlið FV í ár skipa þeir Daníel Scheving Pálsson, Grétar Þorgils Grétarson, Grétar Þór Sindrason og Guðlaugur Gísli Guðmundsson, en með sigrinum unnu þeir sér inn þátttökurétt á fjölþjóðamóti sem fer fram í Bretlandi í febrúar á næsta ári.

Nánar um keppnina á Facebook síðum FV og Schlumberger-félagsins Next sem hélt keppnina.

https://www.facebook.com/framhaldsskolinnivestmannaeyjum/   og

https://www.facebook.com/PetroChallenge/